20/03/2020

Viðtal: Sigþór lagði hönd á plóg við orkuskipti heimilanna

Sigþór Jóhannesson
Sigþór Jóhannesson

Sigþór Jóhannesson hefur starfað sem verkfræðingur í rétt rúma hálfa öld. Þegar hann hóf störf að loknu námi var meirihluti húsa á Íslandi hitaður með olíu sem nú heyrir til undantekninga. Hann tók þátt í uppbyggingu hitaveitu víða um land en nýting jarðvarma hefur verið hans aðalstarf, bæði hér á landi og erlendis.

Sigþór varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963. Hann lauk fyrrihlutaprófi í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 1966 og hélt um haustið til Þrándheims í Noregi. Þar lauk hann prófi í byggingarverkfræði í október 1968 og sneri heim til Íslands í árslok. Þá var ekki hlaupið að því að fá vinnu sem verkfræðingur.

„Það var hálfgert kreppuástand hérna, það hafði orðið hrun í síldveiðum og gengið fellt. Ég fékk vinnu hjá Fjarhitun og hef unnið þar síðan, eða í rúmlega fimmtíu ár, aðallega við hönnun og eftirlit með hitaveituframkvæmdum fyrstu árin en seinni árin í jarðhitavirkjunum,“ segir Sigþór.

Hann varð framkvæmdastjóri Fjarhitunar árið 1994 og sinnti því starfi síðustu fimmtán árin sem verkfræðistofan starfaði eða til ársins 2008. Þá sameinuðust VST – Rafteikning hf., Fjarhitun hf., Fjölhönnun ehf. og RT ehf. – Rafagnatækni sameinuðust og urðu að Verkís.

„Þá verð ég sviðsstjóri jarðvarmasviðs og hætti því 2011. Þegar ég varð sjötugur árið 2013 gerði ég samning um tímavinnu og hef verið í ýmsum verkefnum, aðallega tengdum jarðhitanýtingu, bæði hér á landi og erlendis. Ég hef mikið unnið fyrir Veitur í Reykjavík og HS Veitur, en auk þess unnið að verkefnum í Kenía og Tyrklandi,“ segir Sigþór.

Stofnuðu Fjarhitun til að byggja upp hitaveitu vestan Elliðaáa

Fjarhitun var ekki gamalt fyrirtæki þegar Sigþór hóf störf þar. Stofan var stofnuð árið 1962, sama ár og verkfræðingar hjá ríki og borg fóru í árslangt verkfall. Á þessum tíma unnu flestir verkfræðingar hjá ríkinu en á meðan á verkfallinu stóð voru nokkrar verkfræðistofur stofnaðar og sífellt fleiri verkfræðingar fóru að starfa sjálfstætt.

„Á þessum tíma var ég í sumarvinnu í síldarbræðslu austur á fjörðum og man eftir því að þangað komu nokkrir verkfræðingar sem unnu þar sem verkamenn af því að þeir voru í verkfalli,“ segir Sigþór.

Hitaveita Reykjavíkur tók til starfa árið 1930. Fyrst var heitu vatni veitt úr borholum við Þvottalaugarnar í Laugardal og á stríðsárunum var heitt vatn leitt til bæjarins frá borholum í Mosfellssveit. Næstu 20 árin stækkaði hitaveitan nánast ekkert og á sjötta áratugnum voru nýjustu hverfin í Reykjavík, eins og Árbær og Fossvogur, hituð með olíu.

Í lok árs 1961 samþykkti Alþingi lagafrumvarp um heimild fyrir ríkisstjórnina til lántöku hjá Alþjóðabankanum, allt að 2 milljónum Bandaríkjadala og að endurlána þá fjárhæð Reykjavíkurborg til stækkunar hitaveitu. Bæjarstjórn Reykjavíkur hafði áður samþykkt að leggja hitaveitu í öll skipulögð byggðahverfi bæjarins vestan Elliðaáa á árunum 1962-1965.

 

Þvottalaugarnar í Laugardal 1934. Ljósmyndari/Willem van de Poll

„Ísland var nú ekki ríkara en það á þeim tíma að það uppfyllti skilyrði bankans sem lánaði bara til þróunarlanda. Það fékkst lán frá bankanum til að fara í þessar framkvæmdir,“ segir Sigþór. Lánið lá fyrir, það voru til peningar fyrir verkefninu en það var einn hægur á, verkfræðingar á Íslandi voru enn í verkfalli.

Fjórir verkfræðingar sem höfðu unnið hjá hitaveitunni að undirbúningi framkvæmdanna stofnuðu verkfræðistofuna Fjarhitun með eitt verkefni í huga, að hanna hitaveitukerfið í Reykjavík og hafa eftirlit með framkvæmdunum.

Sigþór segir að Alþjóðabankinn hafi einnig gert þá kröfu að það væru ekki fyrirtækin sjálf sem hönnuðu og hefðu eftirlit, heldur væri það í höndum utanaðkomandi fyrirtækis. Þannig gat Hitaveita Reykjavíkur ekki séð um þetta verkefni, heldur varð að leita til annarra. Helsta ástæða fyrir stofnun Fjarhitunar var verkfall verkfræðinga hjá ríkinu en einnig reglur Alþjóðabankans um að hönnun og framkvæmdaeftirlit yrðu í höndum óháðs aðila.

Upphaflega átti uppbygging hitaveitunnar að vera eina verkefni Fjarhitunar en síðan fjölgaði þeim og fyrirtækið starfaði áfram. „Fjarhitun annaðist margskonar verkefni á sviði bygginga- og vélaverkfræði, hitaveitur, vatnsveitur, holræsakerfi, lagna- og, loftræsikerfi í hús, gatnagerð, hafnarmannvirki og jarðhitavirkjanir,“ segir Sigþór.

Hitaveitan á Húsavík sérstaklega minnisstæð

Fyrstu árin hjá Fjarhitun var Sigþór oft sendur út á land í vinnu við mælingar og gatnagerð. Hann hafði sinnt slíkum verkefnum hjá Reykjavíkurborg í sumarvinnu samhliða námi og hafði því reynslu. „Þetta var það sem maður hafði reynslu í svo maður var mikið í því fyrstu árin,“ segir Sigþór sem vann þannig verk á ýmsum stöðum úti á landi, til að mynda í Stykkishólmi, Hveragerði og á Höfn í Hornafirði og Blönduósi.

„Ég sá um gatnahönnun, holræsi og vatnsveitu. Svo fór ég í auknum mæli að fást við hitaveituhönnun. Fyrst á Húsavík, síðan í Reykjavík, svo var Hitaveita Suðurnesja stofnuð. Hún byggðist upp frá 1975 og fram yfir 1980,“ segir hann.

Meirihluti húsa á Íslandi var hitaður með olíu þegar Sigþór hóf störf sem verkfræðingur árið 1968 en það átti eftir að breytast.

„Eftir 1970 breytist þetta, allt höfuðborgarsvæðið fær hitaveitu, Suðurnesin koma þarna og Akureyri, Akranes, Borgarnes, Hvammstangi, Blönduós og Siglufjörður,“ segir Sigþór.

Hann segir að íbúar í bæjarfélögum þar sem hann kom að uppbyggingu hitaveitu hafi almennt tekið vel í breytingarnar. „Mér er sérstaklega minnisstætt fyrsta hitaveituverkefnið mitt á Húsavík, þar tóku allir mjög vel í þetta. Það var alveg sama hvað það kostaði. Það höfðu verið svo miklar truflanir í olíukyndingunni vegna rafmagnstruflana,“ rifjar Sigþór upp. Nú gátu Húsvíkingar hitað hús sín án vandræða allan veturinn og tóku íbúar framkvæmdum því fagnandi.

Auk þess að sinna starfi framkvæmdastjóra hjá Fjarhitun voru aðalverkefni Sigþórs á sviði jarðhitanýtingar. Minnistæðustu hitaveituverkefnini voru Hitaveita Húsavíkur og Hitaveita Suðurnesja. Í þessum verkefnum vann Sigþór að fyrstu áætlunum og fylgdi þeim eftir allt til loka.

Af öðrum minnistæðum verkefnum nefnir Sigþór vinnu við björgun mannvirkja í Vestmannaeyjum á fyrstu sex vikum eldgosins árið 1973. Þó vinnan þar hafi aðeins staðið í nokkrar vikur mun hún seint gleymast enda ólík öllu öðru sem Sigþór kom að á sinni starfsævi.

Auk verkefna í Íslandi kom Sigþór að jarðhitaverkefnum m.a. í Rússlandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Chile, Tyrkland og Kenía.

Í seinni tíð segir Sigþór að eftirminnilegustu verkefnin hafi verið í Tyrklandi og Kenía. „Þó að þetta væru samskonar verkefni og maður var í heima eru þetta allt öðruvísi samskipti. segir hann. Sigþór fór yfir tuttugu sinnum til Tyrklands og átta sinnum til Kenía vegna þessara verkefna.

Ekki erfitt að tileinka sér nýja tækni

Þegar Sigþór hóf störf sem verkfræðingur voru dýrustu tækin fyrir landmælingar, mælitæki eins og fjarlægðar- og hæðarmælar. Reiknistokkurinn var mikið notaður og segist Sigþór sjá eftir honum. „Það þótti mjög merkilegt að kunna á reiknistokk þannig að menn duttu mikið í almenningsáliti þegar þeir gátu ekki slegið um sig með reiknistokk. Þetta var einfalt tæki en alveg ótrúlega mikið hægt að nota það,“ segir Sigþór og brosir.

Þegar leið á tuttugustu öldina fleygði tækninni smá saman fram og tóku rafmagnsreiknivélar við af reiknistokknum. Tölvur urðu smá saman algengari og þá fóru verkfræðingar að tileinka sér ýmis forrit við vinnu sína.

Reiknistokkur var mikið notaður af verkfræðingum á síðustu öld. Myndin er í eigu Minjasafns RARIK.  

„Á þessum tíma var ég hættur að teikna nokkuð. Það var voðalega auðvelt að tileinka sér töflureikna eins og Exel, eða fyrirrennara Exel. Hugsunargangurinn var bara eins og maður hafði gert áður, bara miklu, miklu fljótlegra. Það var hægt að gera margar aðgerðir í einu. Það var ekki erfitt, ekki að neinu leyti,“ segir Sigþór.

Árgangur Sigþórs í verkfræðinni í HÍ var fyrsti árgangur skólans sem var látinn læra forritun. Fyrirtækið IBM hafði gefið háskólanum tölvu, fyrstu tölvuna á Íslandi en gerði kröfu um að tölvan yrði notuð ákveðið mikið til kennslu. Verkfræðinemarnir höfðu því forgang að tölvunni fram yfir starfsfólk háskólans. Tölvan var engin smásmíði og þurfti að byggja hús yfir hana.

„Það fyrsta sem maður gerði í henni var að forrita skekkjureikninga í landmælinga,“ segir Sigþór. Í háskólanum í Noregi þurfti hann einnig að forrita sjálfur. „Að fá þessar PC vélar var mikil einföldun, það var í raun og veru miklu nær þeirri vinnu sem maður gerði í handavinnunni heldur en gömlu tölvurnar, þessar stóru.“

Erfiðleikar við sameininguna aðallega tengdir hruninu

Fjarhitun sameinaðist þremur öðrum verkfræðistofum árið 2008 þegar Verkís verkfræðistofa varð til. Sigþór segir að sameiningin hafi gengið ágætlega en hann var framkvæmdastjóri Fjarhitunar á þessum tíma.

„Það gekk ágætlega. Það er mjög sérstakt að við lendum í því að hrunið kemur rétt eftir sameiningu. Sameiningin tekur gildi í júní, en hrunið er í október sama ár. Rekstarumhverfið gjörbreyttist, það þurfti að segja upp fólki, ég hafði aldrei lent í því áður,“ segir Sigþór.

Hann segir að Fjarhitun hafi verið með ágætis verkefni í gangi sem runnu inn í Verkís, til dæmis Hellisheiðarvirkjun. „Það var voðalega erfitt af því að hrunið hafði svo mikil áhrif, að segja eftir á hvernig þetta hefði getað orðið,“ segir Sigþór.

Verkefni Verkís: Hellisheiðarvirkjun

Stjórnendur Fjarhitunar höfðu áður velt töluvert fyrir sér hvort sameining væri það rétta fyrir fyrirtækið. Fyrst sameinuðust Rafteikning og VST en Fjarhitun ákvað að taka ekki þátt í þeirri sameiningu.

„Það var okkar mat þá. Tveimur árum seinna ákváðum við að vera með. Það þýðir ekkert að hugsa, hvað ef. Auðvitað eru kostir og gallar. Þetta var allt öðruvísi rekstur, að fara úr fjörutíu til sextíu manna fyrirtæki í fyrirtæki með 300 starfsmönnum. Þú þekkir hvern einasta starfsmann og talar við flesta starfsmenn á hverjum degi. Núna þekki ég ekki helminginn af starfsmönnunum, þetta er allt öðruvísi,“ segir Sigþór.

Á árunum fyrir hrun hafði orðið gífurlegur vöxtur. „Maður sá að þetta myndi taka enda og þá yrðum við að sækja til útlanda en það er mjög dýrt. Við sáum að það væru fleiri tækifæri í stóru fyrirtæki en litlu. Það var spurning um sameiningu eða samstarf,“ segir Sigþór og bætir við að þróunin hafi verið í þessa átt á þessum tíma, lítil verkfræðifyrirtæki að sameinast í stærri. „Erfiðleikarnir voru aðallega tengdir þessu hruni. Ég held að öll fyrirtæki hefðu lent í því,“ segir Sigþór.

Landslagið breyttist með útboðunum

Fram eftir síðustu öld voru útboð ekki notuð hér á landi til að úthluta verkefnum, líkt og farið var að tíðkast erlendis.

„Hér á landi voru það eiginlega bara sambönd og menn voru ekkert að skipta, þeir völdu sína ráðgjafa. Eins og til dæmis Hitaveita Reykjavíkur, Fjarhitun var ráðgjafi þeirra. Það þurfi ekkert að ræða það. Þessi tengsl voru þar vegna stofnunar Fjarhitunar og þau bara héldust. Það sem við vorum að vinna fyrir sveitarfélög var allt byggt á svona persónulegum samböndum,“ segir Sigþór.

Hann segir að landslagið hafi breyst nokkuð þegar útboðin tóku við skömmu fyrir aldamótin og nefnir sem dæmi að hönnun Hellisheiðarvirkjunar hafi verið boðin út en fyrsti áfangi Nesjavallavirkjunar, um 1990, hafi ekki verið boðinn út.

„Svo buðum við í eftirlit á Kárahnjúkum og fengum það verk í samstarfi sjö fyrirtækja, þar af fjögur erlend stórfyrirtæki. Það voru gerðar gífurlegar kröfur um reynslu þeirra sem áttu að vinna verkið og ekki margir í heiminum sem gátu það. Farið var fram á margra ára reynslu af eftirliti við hundrað metra háa jarðvegsstíflu. Það eru bara örfáar svona stíflur í heiminum þannig að það þurfti að leita að mönnum út um allan heim,“ segir Sigþór.

Verkefni Verkís: Kárahnjúkavirkjun

Hann segir að lengi hafi Fjarhitun getað gengið að verkefnum hjá Hitaveitu Suðurnesja en þegar farið var í annan áfanga Reykjanesvirkjunar var það verk boðið út. „Gerðar voru kröfur um reynslu af því að hanna jarðhitavirkjun þar sem er saltur sjór og 200 stiga hiti. Ekki voru mörg fyrirtæki í heiminum með þá reynslu og fékk Fjarhitun verkið,“ segir Sigþór.

Fjarhitun bauð líka í eftirlit með vega- og gatnaverð en hafði ekki verið fastur viðskiptavinur í slíkum verkefnum. „Þar sá maður útboðin sem tækifæri til að komast inn í verkefni sem maður hafði ekki átt kost á áður,“ segir Sigþór.

Talið berst að því að lítið sé framundan af jarðvarmavirkjunum hér á landi. „Nei, það er það sem menn hafa áhyggjur af. Það er ekkert á dagskrá og hefur legið nokkuð lengi fyrir að það myndi draga úr þessu. Það er svolítið verið að reyna í Kenía, þeir eru komnir fram úr okkur í heildarframleiðslu. Þar verður framhald en þar er mikil samkeppni sem verður erfið vegna þess að laun á Íslandi eru orðin mjög há vegna gengis krónunnar,“ segir Sigþór.

Verkefni Verkís: Olkaria jarðvarmavirkjun í Kenía

„Þegar kemur svona stopp, er hætt við að engir með reynslu verði til staðar hér á landi þegar á að byrja aftur. Virkjun jarðhita heldur áfram erlendis, svo sem í Kenía , Indónesíu, Suður Ameríku og á Filippseyjum. Ef við náum ekki að taka þátt í þeirri uppbyggingu getur farið svo að ekki verði tiltæk reynsla og þekking á þessu sviði hér á landi eftir tuttugu ár eða svo“ segir Sigþór að lokum.

Í dag vinna lönd heimsins að orkuskiptum, eða að því að auka hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkubúskap Íslands. Aðgerðaráætlun um orkuskipti var samþykkt af Alþingi 31. maí 2017 en í henni er stefnt að því að auka hlutdeild innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á kostnað jarðefnaeldneytis.

Ísland steig mikilvæg skref á síðustu öld með orkuskiptum heimilanna, með því að nýta jarðvarma til að hita hús í stað olíu. Reynsla og þekking Íslendinga, þar á meðal sérfræðinga Verkís, nýtist  víða erlendis þar sem önnur lönd stefna að því að skipta orkugjöfum sem auka kolefnisfótspor út fyrir endurnýjanlega orkugjafa.

Verkís rekur uppruna sinn til ársins 1932. Verkís var stofnað 21. nóvember 2008 en þá runnu saman fjögur fyrirtæki: VST-Rafteikning hf., Fjarhitun hf., Fjölhönnun ehf. og RT ehf. – Rafagnatækni. Áður höfðu VST – Rafteikning sameinast úr Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, sem var elsta verkfræðistofa landsins og Rafteikningu hf. Í apríl 2013 sameinuðust Verkís og Almenna verkfræðistofan undir nafni Verkís. 

Viðtalið var tekið og unnið af Láru Höllu Sigurðardóttur, starfsmanni í kynningarmálum hjá Verkís, með það að markmiði að varðveita sögu fyrirtækisins og safna saman fróðleiksmolum frá fyrri tíð.

Viðtal: Sjómaðurinn sem varð rafmagnsverkfræðingur og borgarstjóri

Viðtal: Lagði mikla áherslu á að mynda traust sambönd innan verkfræðinnar og viðhalda þeim

Sigþór Jóhannesson
Sigþór Jóhannesson