05/02/2018

Vinna við aðalskipulag Súðavíkurhrepps

Súðavík
Súðavik

Verkís heldur nú utan um vinnu við heildarendurskoðun á aðalskipulagi Súðavíkurhrepps. Í skipulaginu, sem á að gilda til ársins 2032, verður sett fram stefna sveitarstjórnar um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar.

Aðalskipulag stýrir því hvar og hvernig við búum og störfum og myndar þannig umgjörð fyrir daglegt líf. Aðalskipulagi er einnig ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu lands og öruggu umhverfi fyrir íbúa og atvinnulíf.

Fjölmargar áskoranir eru í verkefni sem þessu. Samræma þarf ólík sjónarmið og meta þau áhrif sem skipulagið getur haft á umhverfi og samfélag. Í lok nóvember var haldið íbúaþing í Súðavík undir yfirskriftinni Súðavíkurhreppur – samfélag á tímamótum. Þinginu var stýrt af fyrirtækinu Ildi í samvinnu við Verkís.

Þar var m.a. rætt um:

  • Framtíð „gömlu Súðavíkur“, sem stendur á snjóflóðahættusvæði utan við „nýju Súðavík“ sem byggt var upp frá grunni eftir mannskæð snjóflóð árið 1995
  • Þróunarmöguleika í ferðaþjónustu
  • Kalkþörungaverksmiðju sem fyrirhuguð er á Langeyri í innri hluta Súðavíkur
  • Laxeldi
  • Umhverfi, ásýnd og ímynd Súðavíkur

Laugardaginn 3. febrúar hittist svokallaður skipulagshópur og ræddi nánar um málefni aðalskipulagsins undir leiðsögn starfsmanna Verkís. Hópurinn samanstendur af íbúum og hagsmunaaðilum í hreppnum.

Samtalið við íbúa og þá sem starfa í hreppnum er forsenda að farsælu skipulagi, enda þarf stefnan að endurspegla sýn íbúa sveitarfélagsins til að verða virkt stjórntæki við ákvarðanatöku.

Skipulagsvinnan er því í raun samvinnuverkefni sveitarstjórnar, íbúa og hagsmunaaðila. Hlutverk ráðgjafa er að safna saman grunngögnum og leiða þessa aðila saman til að taka ákvarðanir um framtíðina í samræmi við skipulagslög og reglugerð.

Aðalskipulagsvinnan fyrir Súpavíkurhrepp hófst sumarið 2016. Hreppurinn samdi fyrr á því ári við Teiknistofuna Eik á Ísafirði um skipulagsráðgjöf í verkefninu. Verkís tók svo við verkefninu eftir kaup fyrirtækisins á Teiknistofunni Eik.

Verkefnið er unnið á Samgöngu- og umhverfissviði Verkís.

Skipulagsverkefnum hjá Verkís hefur fjölgað mikið síðustu misseri og er útlit fyrir að Verkís muni sinna enn fleiri skipulagsverkefnum á næstunni út um land allt.

Súðavík
Súðavik