18/05/2022

Verkís hefur tekið virkan þátt í uppbyggingu samfélaga í níutíu ár

Susanne og Egill afmælisblað viðtal
screenshot-2022-05-17-145213

Á þessu ári eru liðin 90 ár síðan Sigurður Thoroddsen stofnaði fyrstu verkfræðistofu á Íslandi og miðast aldur Verkís verkfræðistofu við þann atburð. Verkís veitir ráðgjöf og alhliða þjónustu á öllum sviðum verkfræði og í skyldum greinum og í flestum stórframkvæmdum hér innanlands hefur sérfræðiþekking Verkís komið við sögu.

Afmælisblað Verkís kom út fimmtudaginn 12. maí sl. og er viðtalið úr blaðinu. Hér er hægt að lesa blaðið í heild sinni.

Íslenskt samfélag hefur sannarlega tekið stakkaskiptum á þeim níutíu árum sem liðin eru frá því að Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen (VST) var stofnuð, sem Verkís rekur uppruna sinn til. Árið 1932 voru enn nokkur ár í að seinni heimsstyrjöldin hæfist og Ísland var ekki orðið lýðveldi. Hús voru hituð með olíu og kolum, langt var í að hringveginum yrði lokað og örfáar sundlaugar voru á landinu. Fyrsta ár VST sinnti stofan þremur verkefnum og Sigurður var eini starfsmaðurinn en nú starfa rúmlega 300 manns hjá Verkís og sinna fjölmörgum verkefnum. Verkís er stolt af því að hafa tekið þátt í að byggja upp samfélög í níutíu ár, bæði hér á landi og erlendis.

„Verkís veitir ráðgjöf og alhliða þjónustu á öllum sviðum verkfræði og í skyldum greinum og í flestum stórframkvæmdum hér innanlands hefur sérfræðiþekking Verkís komið við sögu. Okkar hugsjón og markmið er að byggja upp samfélög en við höfum meðal annars komið að gerð íþróttamannvirkja, menntastofnana, heilbrigðisstofnana, vatnsafls- og jarðvarmavirkjana og samgönguinnviða á borð við brýr, vegi, flugvelli og hafnir,“ segir Egill Viðarsson, framkvæmdastjóri Verkís.

Fjölbreytt verkefni

Verkefni Verkís eru fjölbreytt en þó er misjafnt milli ára hvaða þjónustuþættir eru veigamestir hverju sinni í starfsemi fyrirtækisins. Á síðustu öld risu margar vatnsaflsvirkjanir og átti Verkís þátt í þeim flestum. Lítið hefur aftur á móti farið fyrir nýjum virkjunum af þeim toga síðustu ár en það gæti þó breyst með tilkomu Hvammsvirkjunar í Neðri-Þjórsá en Verkís hefur veitt ráðgjöf vegna hennar. Undanfarin ár hefur farið fram markviss vinna við endurnýjun og stækkun Reykjanesvirkjunar og hefur Verkís verið aðalráðgjafi þeirrar vinnu.

Síðustu árin hafa verkefni sem snúa að uppbyggingu innviða verið áberandi hjá Verkís og má þar helst nefna endurnýjun veitna, gatna, vega og á öllu því sem viðkemur fráveitukerfum. Egill segir mörg svipuð verkefni fram undan hjá Verkís. „Innviðaverkefnin fara nú hægar af stað en átti að vera, þá er ég að tala um Samgöngusáttmálann og verkefni sem fara svolítið hægar af stað,“ segir Egill, aðspurður um helstu verkefni fyrirtækisins.

Aukin verkefni tengd orku

Framundan er aukning í verkefnum sem snúa að orku, orkuflutningi og styrkingu raforkukerfisins. Veturinn 2020 geisuðu óveður sem sýndu greinilega að víða var pottur brotinn og styrkja þurfti kerfið svo það ráði betur við veður og vinda. „Ég held að það hafi aldrei verið fleiri tengivirki og slík mannvirki í hönnun og undirbúningi en undanfarin tvö ár. Styrkingu innviðanna er gjarnan tekið sem sjálfsögðum hlut en hún þarfnast góðs undirbúnings, vinnu og viðhalds,“ segir Egill.

Undanfarin ár hefur lítið verið um uppbyggingu stóriðju en Verkís hefur oft komið að slíkum verkefnum. „Þau eru þó að vakna til lífsins í dag eins og til dæmis hjá Norðuráli þar sem verið er að byggja nýjan boltasteypuskála og tekur Verkís þátt í því verkefni,“ segir Egill.

Susanne Freuler, varaformaður stjórnar Verkís, bendir á að hlé hafi verið á fjárfestingum hjá álfyrirtækjum af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna lækkandi álverðs. „Nú er komin uppsöfnuð þörf fyrir fjárfestingar hjá þessum aðilum, í verkefnum sem voru geymd uppi í hillu í einhvern tíma,“ segir hún.

„Þetta er eiginlega tvíþætt, annars vegar vegna orkuskipta og hins vegar, eins og Susanne nefndi, að álverð er í hæstu hæðum og það er aukin þörf og eftirspurn. Álverðið hefur ekki verið svona hátt frá árinu 2008. Og á meðan þetta er í gangi, ástandið á heimsmörkuðum eins og undanfarið, þá mun sú eftirspurn bara aukast,“ bætir Egill við.

Mörg verkefni á erlendri grundu

Verkís hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum verkefnum víða erlendis. Fyrirtækið á dótturfyrirtæki í Noregi, Georgíu og á Grænlandi. Í Noregi er mikið um byggingarverkefni. Verkís hefur hannað sundlaugar, veitur, vegi, brýr og göngu- og hjólastíga, ásamt því að vera óháður rýnir í stórum innviðaverkefnum.

Á Grænlandi vinnur Verkís meðal annars að hönnun grunnskóla í Nuuk og lengsta þjóðvegar Grænlands. Hann mun liggja á milli Kangerlussuaq og Sisimiut og er fyrsti vegurinn sem tengir saman tvo þéttbýlisstaði þar í landi. Í Georgíu hafa verkefnin helst snúið að vatnsaflsvirkjunum og í Afríku að jarðvarmavirkjunum.

Þá hefur Verkís einnig aðstoðað World Bank og aðrar slíkar stofnanir sem þurfa þriðja álit á kostum í bæði vatnsafls- og jarðvarmaverkefnum, sem stendur til að styrkja. Þá hefur Verkís einnig kennt í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna en með því að kenna og fræða heimafólk getur það hjálpað sínu nærsamfélagi til dæmis í sjálfbærni. Verkís tekur einnig þátt í þróunarverkefnum sem styrkt eru af Evrópusjóðum.

Auknar og breyttar þarfir markaðarins

Á síðustu árum hafa margir þjónustuþættir bæst við hjá Verkís í takt við auknar, breyttar og nýjar þarfir markaðarins. „Ég tel að Verkís hafi getað mætt þeim þörfum ágætlega með þróun og að horfa vítt á þau málefni og styrkja sig þar sem kröfur eru gerðar um slíkt. Okkur hefur líka tekist að vera á undan hvað suma hluti varðar, til dæmis BIM, vistvottanir og fleira,“ segir Egill. Æ oftar er gerð krafa um vist vottanir og sjálfbærni í verkefnum. Hann segir að hið síðarnefnda hafi áður fyrr oft verið kallað ending og öryggi.

„Þetta er svipað og reynslan mín hefur kennt mér þegar ég hef tekið þátt í að hanna hafnarmannvirki í gegnum tíðina. Þar er endingar- og öryggisviðmiðunin til dæmis alltaf og skoðuð sérstaklega. Það hefur oft legið við að þegar hannað er samkvæmt stöðlum og/eða leiðbeiningum með lágmarksgildi, að þá sé lítill gaumur gefinn að því að skoða hvort lágmarksgildin dugi raunverulega fyrir það markmið sem notkun mannvirkisins á að þjóna.

Í sumum tilvikum má líka huga að því að það er ekkert sem mælir gegn því að hækka „standardinn“ eða viðmiðin og gera meira og betur en lágmarksgildi staðla segja til um. Það hefur vissulega verið gert í mörgum verkefnaflokkum þar sem mannvirkið á að endast áratugum saman, þar sem lögð er áhersla á öryggi og afleiðingar ef hlutirnir virka ekki eða ef eitthvað bregst sem getur haft miklar afleiðingar, tafir og með ófyrirsjáanlegum kostnaði fyrir þjóðfélagið, til dæmis ef höfn dettur út, öryggið er mikilvægt í öllum skilningi þess orðs,“ segir hann.

Sjálfbærni og heimsmarkmið

Aðspurður segir Egill þessar auknu kröfur til hönnuða ekki koma aftan að Verkís. „Eitt af þeim verkfærum sem við höfum verið að þróa til að auka við þjónustuframboðið er reiknilíkan sem tengist sjálfbærni í mannvirkjum. Þannig geta viðskiptavinir valið sér heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem þeir vilja að tekið sé tillit til við hönnun mannvirkisins,“ útskýrir hann. Margir viðskiptavinir hafa tekið þessari nýbreytni vel og vilja gjarnan fara þessa leið.

Aðrir nýlegir þjónustuþættir sem Verkís hefur tileinkað sér varða til dæmis stafræn gögn; 3Dskönnun mannvirkja, lidar-skönnun og landmælingar með drónum (flygildum). „Við erum stöðugt að þróa okkur, enda erum við með þróaða ferla hér innandyra sem snúa að nýsköpun og viðskiptaþróun verkefna og verkefnaöflun. Við erum að horfa til framtíðar og skoðum hvernig við getum þjónustað markaðinn sem best og mætt þörfum hans.“

Helstu áskoranir á næstu árum og áratugum

Susanne telur að helstu áskoranir íslenskra verkfræðistofa á næstu árum og áratugum séu að missa ekki af lestinni og halda í við þá þróun sem á sér stað. „Það þarf að leggja meiri áherslu á atriði sem gleymdust hér áður fyrr. Sjálfbærni er auðvitað lykilorð dagsins í dag. En hvað kemur næsta áratug, það veit enginn ennþá og það verður alltaf að fylgjast með öllum nýjum straumum. Endurmenntun og sérfræðiþekking skiptir öllu máli. Við styðjum fólk í að mennta sig frekar, sækja ráðstefnur og vera virk í alls konar faghópum, ekki bara innanhúss heldur líka utanhúss,“ segir hún. Starfsfólk Verkís tekur þátt í ýmsum samráðsverkefnum, meðal annars hjá Grænvangi, Grænni byggð, Orkuklasanum og Staðlaráði.

„Við kynntumst því í Noregi fyrir rúmlega tíu árum að þar hefur endurmenntun starfsfólks miklu meira vægi þegar þú ert að sækjast eftir verkefnum. Við áttum okkur á því að við erum fámennari en flestar aðrar þjóðir og eigum stundum í erfiðleikum með að finna endurmenntun við hæfi hér á Íslandi. Starfsfólk hefur verið að fara utan til að ná sér í endurmenntun. Það er samspil fyrirtækisins og starfsfólks að finna viðeigandi endurmenntun, og þar er mikilvægt að vita hvar þörfin liggur og vera með árangursríka endurmenntun. Þetta er eitt af verkefnum framtíðarinnar,“ bætir Egill við.

Stjórn Verkís ákvað í tilefni af 90 ára afmælinu að leggja Rauða krossinum lið vegna ástandsins í Úkraínu með þriggja milljóna króna styrk og styrkja Ljósið um sömu upphæð, sex milljónir króna í heildina. Styrkurinn til Rauða krossins er eyrnamerktur aðstoð við flóttafólk frá Úkraínu. Þá var Verkís einnig styrktaraðili Styrkleikanna sem fóru nýlega fram á Selfossi. „Við viljum sýna samfélagslega ábyrgð í verki og taka þátt í að byggja upp samfélög bæði hér á landi og erlendis,“ segir Susanne að lokum.

 

Heimsmarkmið

Susanne og Egill afmælisblað viðtal
screenshot-2022-05-17-145213