26/05/2020

Snjallvæða mæla fyrir hitaveitu á Selfossi

Snjallmælar á Selfossi
Snjallmælar á Selfossi

Rúmlega fjögur þúsund snjallmælar fyrir hitaveitu verða settir upp í íbúðarhúsum á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri á næstunni. Samið var við fyrirtækið Set hf. um afhendingu mælanna fyrir Selfossveitur og sá Verkís um hönnun og útboð á mælakerfinu.

Með tilkomu snjallhitamælanna munu notendur fá reikning fyrir raunnotkun á heitu vatni en ekki samkvæmt áætlun sem reiknuð er út frá notkun síðasta árs. Mælarnir munu senda mælingar viðkomandi viðskiptavinar að minnsta kosti einu sinni í mánuði og koma þau gögn í staðinn fyrir álestur á mælana.

Vonir standa til að notendur geti skoðað eigin notkun á netinu og borið saman við meðaltalsgildi heimila af svipaðri stærð.

Mælunum fylgir töluverð rekstrarhagræðing fyrir Selfossveitur þar sem þeim þarf ekki að skipta út fyrr en að 12 árum liðnum og álestur er nánast úr sögunni. Þar að auki er hægt að láta mælana senda mæligildi oftar en einu sinni í mánuði. Þetta gefur Selfossveitum aukna möguleika á að fylgjast með notkuninni og vakta til að mynda leka og þrýstifall í kerfinu.

Fyrir utan flæði senda mælarnir frá sér upplýsingar um hita og orkunotkun. Greiningarforrit mun einnig senda frá sér viðvörun vegna notkunar sem hún telur óeðlileg. Búnaðurinn mun því veita Selfossveitum mjög góða yfirsýn yfir allt þeirra kerfi á gagnvirku korti.

Mælarnir koma frá mælaframleiðandanum Diehl í Þýskalandi. Verkið var boðið út á evrópska efnahagssvæðinu.

Snjallmælar á Selfossi
Snjallmælar á Selfossi