Kísilverksmiðjan Helguvík

Kísilverksmiðjan í Helguvík

Áformaðar eru endurbætur á kísilverksmiðjunni í Helguvík, sem nauðsynlegar eru til að uppfylla kröfur Umhverfisstofnunar fyrir endurræsingu verksmiðjunnar.

Rekstur kísilverksmiðjunnar í Helguvík var stöðvaður með ákvörðun Umhverfisstofnunar þann 1. september 2017. Félagið Stakksberg ehf. hefur keypt kísilverksmiðjuna í Helguvík af þrotabúi verksmiðjunnar, sem var áður í eigu Sameinaðs Sílikons hf. Nýr eigandi hyggst framleiða kísil eins og undanfari hans, eða allt að 100.000 tonn af kísli á ári í fjórum ljósbogaofnum.

Í tillögu að matsáætlun er gerð grein fyrir fyrirhuguðum úrbótum á verksmiðjunni, sem munu hafa áhrif á nokkra umhverfisþætti sem fjallað var um við mat á umhverfisáhrifum kísilverksmiðjunnar á sínum tíma. Sett er fram rökstudd áætlun um hvaða umhverfisþætti verður fjallað um í mati á umhverfisáhrifum breyttrar kísilverksmiðju.

Fyrsta skref í ferli mats á umhverfisáhrifum er að framkvæmdaraðili vinnur tillögu að matsáætlun. Í áætluninni er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst.  Greint er frá helstu áhrifaþáttum framkvæmdarinnar og á hvaða umhverfisþætti verður lögð áhersla í mati á umhverfisáhrifum.  Fyrirliggjandi gögnum er lýst og eftir atvikum er greint frá frekari upplýsingaöflun sem nauðsynlegt er að ráðast í til að hægt sé að meta umhverfisáhrif framkvæmdar.  Fjallað er um samræmi við gildandi skipulag og loks er farið yfir hvernig staðið verður að samráði og kynningu matsins.

Drög að tillögu að matsáætlun voru kynnt af framkvæmdaraðila fyrir umsagnaraðilum og almenningi síðastliðið sumar og bárust athugasemdir frá rúmlega 120 aðilum. Kynningin á þessu stigi máls er á vegum Skipulagsstofnunar.

Tillaga að matsáætlun vegna endurbóta á kísilverksmiðjunni í Helguvík
Viðauki 1: Minnisblað frá Vatnaskilum um líkan vegna dreifingar efna í lofti
Viðauki 2: Tafla með framkomnum athugasemdum umsagnaraðila og viðbrögðum við þeim
Viðauki 3: Tafla með framkomnum athugasemdum fyrirtækja og almennings og viðbrögðum við þeim
Viðauki 4: Bréf og tölvupóstar umsagnaraðila og stofnana
Viðauki 5: Bréf og tölvupóstar fyrirtækja og almennings

Frekari gögn um málið má finna á vefsíðu Stakksbergs en þar er hægt að nálgast matsskýrslu Stakksbrautar 9 ehf. frá árinu 2013, niðurstöður mælinga á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum sem talin eru geta valdið almenningi ónæði og skýrslu sem fjallaði um dreifingu slíkra efna í lofti.

Athugasemdir við tillögu að matsáætlun má senda á skipulag@skipulag.is, eða í pósti stíluðum á:

Skipulagsstofnun
Borgartúni 7b
105 Reykjavík 

Athugasemdum skal skila eigi síðar en 15. desember 2018 (athugið að frestur hefur verið lengdur, var áður 5. des.).