Grágæsamerkingar

Grágæsa­merkingar 2016

Um miðjan júlí 2016 var haldið í leiðangur norður og austur um land til að merkja grágæsir með GPS/GSM sendum. Þessar merkingar eru liður rannsóknum á gæsum í samvinnu Verkís, Náttúrustofu Austurlands (NA) og Wildfowl and Wetland Trust (WWT).

Tilgangur merkinganna er að fylgjast með ferðum grágæsa, hvar þeirra farleiðir liggja og hvar þær eyða vetrinum. Auk þess að skrásetja ferðir gæsanna þá fást upplýsingar um hvernig gróðurlendi þær sækja á mismunandi tímum árs og hvert þær leita í náttstað.

Sendarnir sem settir eru á gæsirnar eru framleiddir af pólsku fyrirtæki, Ecotone og eru á hálshringnum sem settur er um háls gæsanna.  Hringirnir eru prentaðir í þrívíddarprentara (sjá mynd) og því mjög léttir, aðeins um 30 grömm með sendinum. Þeir eru því ekki taldir íþyngja gæsunum en komin er áratuga reynsla af því að merkja gæsir með hálshringjum og þúsundir gæsa borið venjulega hálshringi án þess að vitað sé til að þær beri skaða af. Framan á hálshringnum má sjá hvítan kassa með svartri plötu á. Inni í kassanum er GPS móttakari sem staðsetur gæsina og vistar staðsetningar á minniskubb og er GSM símsendir sem sendir SMS skilaboð með þessum staðsetningum til Póllands þar sem hægt er að nálgast þær. Hægt er að stjórna því hve oft gæsin safnar staðsetningum og hve oft hún sendir þær en það er gert með því að senda SMS til gæsarinnar með skipunum þar að lútandi. Rafhlaða í kassanum sem knýr þetta allt er hlaðin með sólarsellu sem er svarta platan framan á hálshringnum.

Sendarnir eru kostaðir af styrktaraðilum og fá þeir sem styrkja verkefnið með kaupum á sendi að ráða nafni gæsanna.  Kostunaraðilar koma fram hér að neðan og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir styrkinn. Hver gæs hefur þannig fengið nafn og með því að smella á nafnið hér að neðan opnast síða um viðkomandi gæs þar sem lesa má um hana, hvar hún var merkt, hvort hún á unga og um ferðir hennar.

Anna – styrkt af Sýni ehf.

Blanda – styrkt af Tryggingamiðstöðinni

Jónas í Hlað – styrkt af Hlað hf.

Linda – er styrkt af Sindri vinnuföt

Sjókallinn – styrkt af MultiTask ehf.

Skúli – styrkt af Lagastoð lögfræðiþjónusta

Sveinn – styrkt af Verkís hf.

Kort sem sýnir ferðir allra gæsanna má sjá hér og með því að setja hak fyrir framan nafn gæsar þá miðjast kortið um ferðir hennar. 

Hvað á að gera ef gæs með sendi veiðist eða finnst dauð?  Láta vita strax í síma 8434924 eða á netfangið ats@verkis.is  Rafhlöður sendisins eru hlaðnar með sólarljósi því er mikilvægt að geyma sendinn í dagsljósi, alls ekki innandyra eða í myrkri.

Hálshringur með sendi frá Ecotone (ecotone.pl).

Vinnuflokkur Landsvirkjunar í Blöndustöð til í slaginn á Blönduósi.

Vinnuflokkur Landsvirkjunar í Blöndustöð til í slaginn fyrir Vatnshlíðarvatn.

Vinnuflokkur frá Dalvíkurbyggð hlustar einbeittur á fyrirmæli fyrir veiðarnar í friðlandi Svarfdæla.

Vinnuflokkur Landsvirkjunar á Egilsstöðum til í slaginn fyrir Egilsstaðaflugvöll.

Gæsafangarar í Norðfirði að lokinni merkingu.