Blanda

Blanda

Blanda var veidd á Blönduósi ásamt 112 öðrum grágæsum ungum og fullorðnum á Einarsnesi við Blöndu. Hún er pöruð og var parið með átta unga þegar hún var merkt. Blanda er með svart hálsmerki með bókstafnum B. Gæsunum var smalað í netgirðingu eins og sjá má hér á myndbandi. Jón Sigurðsson, guðfaðir Blöndu, fylgdist vel með og sagði frá merkingunni á mbl.is

Við merkinguna á Blöndu og félögum hennar nutum við góðrar aðstoðar vinnuflokks Landsvirkjunar í Blöndustöð auk heimamanna af Blönduósi, Svartárdal og Vatnsdal. Merkingamenn fengu svo að gista í Blöndustöð á meðan á merkingum á svæðinu stóð.  Þessum aðilum er þökkuð kærlega veitt aðstoð og aðstaða. 

Senditækið á Blöndu er kostað af Tryggingamiðstöðinni og réð TM nafninu. Rannsóknaraðilar þakka Tryggingamiðstöðinni kærlega veittan styrk.

Hér er kort af ferðum allra gæsanna. 

Eins og sjá má á kortinu hélt Blanda að mestu kyrru fyrir nærri merkingastað eftir merkingu og meðan hún var enn í sárum og því ófleyg. Á þessum tíma náttar hún sig á og við Blöndu. Innan bæjarmarkanna eru gæsirnar óhultar frá veiðum en veiðitími hófst þann 20. ágúst.  Blanda bregður sér svo af bæ þann 4. september og skellir sér á Laxárvatn og síðan að Geitaskarði í Langadal.  Þaðan fer hún inn á Blönduós að nýju þar sem hún heldur til þar til 11. september, hún fer að nátta sig í Húnavatni við ósa Laxár eftir að hafa verið á beit í túnum á Hjaltabakka, þar til að kveldi 13. september.  Þaðan fer hún að sækja í tún og akra við Torfalæk og nátta sig á Húnavatni.  Þar er veitt og hún því í meiri hættu en á Blönduósi.