Jónas

Jónas í Hlað

Jónas var veiddur í Svarfaðardal, í friðlandi Svarfdæla þann 20. júlí ásamt Önnu og 4 ungum. Jónas er paraðu og var með tvo unga við merkingu. Jónas er með svart hálsmerki með bókstafnum H. Við merkinguna á Jónasi nutum við aðstoðar frá vinnuflokki á vegum Dalvíkurbyggðar og frá Myriam Dalstein og Leu Dalstein Ingimarsdóttur. Þessum aðilum er þökkuð kærlega aðstoðin. Hjörleifur Hjartarson frá Norðurslóð fylgdist með og skrifaði frétt um merkinguna. Sjónvarpsþátturinn Landinn var einnig á staðnum og tók upp.

Senditækið á Jónasi er kostað af Hlað ehf. og réðu þeir nafninu. Rannsóknaraðilar þakka Hlað ehf. kærlega veittan styrk.

Hér er kort af ferðum allra gæsanna. 

15.11.2016
Jónas farinn á vetrarstöðvarnar

Jónas er fyrstur af norðlensku gæsunum til að leggja í hann yfir hafið en austfirðingarnir eru allir farnir, Skúli og Sjókall tíu dögum fyrr en ekki er alveg vitað enn hvenær Sveinn lagið í hann en hann var kominn til Orkneyja 1. nóvember. 

Jónas hefur eytt haustinu að mestu í hlíðum Bæjarfjallsins sem stundum er nefnt Upsafjall, norðan við Dalvík.  Þar sem hann hefur væntanlega nærst á berjum og villigróðri í blíðunni sem verið hefur fyrir norðan í haust. Einstaka sinnum hefur hann fengið sér grængresi í túnunum að Hóli á Upsaströndinni. Hann hefur svo náttað sig á Flæðunum í Friðlandi Svarfdæla.  Aðfaranótt 1. nóvember fer Jónas svo yfir Eyjafjörðinn á leirurnar við Laufás, kannski til að sameinast þar öðrum gæsum, en þar er hann staddur klukkan sex að morgni.  Þrem tímum seinna, um kl. 9 þá er hann lagður af stað og kominn um 10 km suður af Laufási.  Klukkan 12 á hádegi er hann búinn að fljúga yfir landið og er staddur um 72 km. suðaustur af Hornafirði.  Eins og sést á veðurkorti þá er hann á þeim tíma með vindinn í bakið og meðbyr uppá um 24 km/klst.  Klukkan 21 um kvöldið þá er hann búinn að fljúga um 680 kílómetra og um það leyti virðist hann lenda á sjó vestur af Sula sgeir, sem er lítil óbyggð eyja með stóru súluvarpi. Í þessar 9 klukkustundir þá er hann í góðum meðbyr og meðalhraði Jónasar er um 76 km/klst.  Hann virðist halda kyrru fyrir á sjónum yfir nóttina en einhvern tíma eftir klukkan 6 að morgni 2. nóvember er flýgur hann til suðurs og tekur land á eynni Lewis sem er ein af Suðureyjum vestur af Skotlandi.  Þangað er hann kominn kl. 9 um morgun og heldur þar kyrru fyrir í sólarhring en eftir kl. 9 að morgni 3. nóvember heldur Jónas sem leið liggur til Caithness (Katanes), nyrst í Skotlandi þar sem hann er lentur um kl. 15, nærri Dounreay þar sem áður var kjarnorkuver sem var mjög umdeilt á sínum tíma en er nú aflagt og verið að rífa. Á þessum slóðum virðist Jónas þekkja sig og hefur haldið til þarna nærri Dounreay og náttað sig á vatni sem heitir Caol-Loch.  Þann 10 nóvember náttar Jónas sig svo á vatni sem heitir Loch-Calder og er nokkuð austar en Caol-Loch en á Loch Calder hélt grágæsin Díana sig veturinn eftir að hún var merkt á Úthéraði 2014.

Ef veðrið á leiðinni er skoðað sést að þegar Jónas leggur af stað þá er nánast logn í Eyjafirði, eða um 2 m/sek.  Á hádegi 1. nóvember þegar Jónas er suðaustur af Hornafirði þá er vindurinn um 7 m/sek við yfirborð sjávar.  Ef aftur á móti Jónas er í meiri hæð, sem ekki er ólíklegt þar sem hann er búinn að fljúga í meðbyr yfir hálendið, þá er þar sterkari meðvindur.  Í um 1.500 metra hæð yfir sjávarmáli er meðbyrinn um 14 m/sek eða um 49 km/klst.  Vitað er að gæsir geta flogið mun hærra en þetta því taumgæsir fara yfir Himalaya fjöll á farleið sinni og geta flogið í um 9.000 metra hæð yfir sjávarmáli og álftir á leið frá Íslandi til Írlands sáust úr flugvél í um 8.200 metra hæð.

Á meðfylgjandi myndbandi sem búið er til með skjáskotum af síðunni https://earth.nullschool.net má sjá veðrið sem Jónas upplifir á leiðinni og hvernig hann nær að nýta vel norðvestanáttina sem kom í stuttan tíma eftir þrálátar suðlægar áttir fyrir og eftir að hann flýgur yfir hafið.https://www.youtube.com/watch?v=KVx-U3abR7w

 

-----------------------------------------------

Eins og sjá má á kortinu þá hélt Jónas sig að mestu með fjölskylduna í friðlandinu fyrstu vikurnar, nærri þeim stað sem hann var merktur. Eftir að gæsirnar fara að fljúga fer Jónas að heimsækja túnin við Böggvisstaði og Hrísa. Einnig bregður hann sér upp í fjöllin ofan Karlsár og í Bæjarfjallið í berjamó.