Linda

Linda

10.10.2016
Grágæsin Linda fallin.
Grágæsin Linda var skotin af veiðimönnum í Skagafirði laugardaginn 8. október.  Eftir að hafa verið við Vatnshlíðarvatn í Vatnsskarði, þar sem hún var merkt 19. júlí og naut þar verndar, þá ákvað hún að fara í Skagafjörðinn þann 29. september.  Þar dvaldi hún í fyrstu á bökkum Húseyjarkvíslar, skammt norðan Varmahlíðar og vissu veiðimenn sem þar veiða af henni og létu því hópinn vera. En Linda var áhættusækin og þann 6. október flutti hún sig aðeins sunnar þar sem hún náttaði sig í Héraðsvötnum en sótti í tún og akra hjá Vallholtsbæjum og þar í kring, en þar eru vinsæl gæsaveiðisvæði. Þar var hún svo skotin þann 8. október eins og fyrr sagði. Sendirinn slapp óskemmdur og skiluðu veiðimennirnir honum til okkar og er þeim þakkað kærlega fyrir það. Það var alltaf reiknað með að einhverjar gæsanna myndu lenda í veiði og ekkert við því að segja. En það er ómetanlegt að fá sendinn til baka því þar sem hann er óskemmdur þá getum við notað hann áfram og því bíður okkar það verk að fanga nýja gæs til að bera sendinn.  Hvað hún mun heita á eftir að koma í ljós.  Sendirinn á Lindu var kostaður af Sindri Vinnuföt sem mun fá að velja nafnið á gæsinni sem fær sendinn næst.

Við hvetjum veiðimenn sem kunna að veiða gæs með sendi að halda sendinum úti við í ljósi svo hann haldi hleðslu líkt og veiðimenn Lindu gerðu og láta okkur vita strax.  Einnig ef gæsir með venjuleg merki, hálsmerki og/eða stálmerki á fótum að senda upplýsingar um það til okkar og á fuglamerki@ni.is.

---------------------------------------------------

Linda var veidd á Vatnshlíðarvatni í Vatnsskarði, milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar. Hún var veidd af báti á vatninu í niðaþoku en á vatninu er hópur gæsa sem fellir fjaðrir auk nokkurra varpfugla og ungar þeirra. Linda er með svart hálsmerki með bókstafnum L, hér má sjá myndband af Lindu. Seinna sást að Linda er líklega pöruð en ekki með unga. Annað hvort ekki orpið eða misst unga sína. Við merkinguna á Lindu nutum við aðstoðar Stefáns Gissurarsonar sem á bústað við vatnið og er sérstakur verndari gæsanna þar. Þó Stefán sé mikill veiðimaður, bæði á fisk og fugl þá njóta fuglar á vatninu og við það griða. Meira að segja hefur Stefán byggt þrjá hólma í vatnið þar sem gæsir verpa ásamt himbrimapari og eru þar með örugg fyrir ágangi refa. Vinnuflokkur Landsvirkjunar í Blöndustöð hjálpaði okkur einnig við að fanga Lindu og er þeim og Stefáni Gissurarsyni þakkað sérstaklega.

Senditækið á Lindu er kostað af Sindri vinnuföt og réð Sindri nafninu. Rannsóknaraðilar þakka Sindra vinnufötum kærlega veittan styrk.

Hér er kort af ferðum allra grágæsanna. 

Eins og sjá má á kortinu hefur Linda haldið sig á og við vatnið.  Meðan hún var enn ófleyg fór hún aðallega í mýrina við vesturbakkann og aldrei langt frá vatninu svo hún gæti forðað sér út á það ef hætta steðjaði að. Eftir að hún fór að fljúga er hún farin að heimsækja túnin á Vatnsskarði og Valagerði auk þess að skella sér í berjamó sunnan við vatnið.