Sjókallinn

Sjókallinn

07.12.2016
Grágæsin Sjókall fallin.
Grágæsin Sjókall var skotin af frönskum veiðimönnum á Orkneyjum laugardaginn 3. desember síðastliðinn. Eftir frækilegt farflug til Orkneyja 18.-19. október þar sem hann flaug um 1.700 km leið á innan við 24 klukkutímum á meðalhraða uppá rúmlega 70 km/klst er hann nú allur. Hann dvaldist í fyrstu við Work flóa, norðaustur af Kirkwall á Mainland Orkney en flutti sig um set í lok nóvember og fór að nátta sig á Gairsey og sæka í tún og akra á Gorseness.  Á Gorseness var hann svo skotinn ásamt 31 grágæs. 

Fréttin af dauða hans barst fljótt til okkar með Facebook og þar sem sendirinn slapp óskaddaður þá erum við búin að gera ráðstafanir til að fá hann aftur. Það var alltaf reiknað með að einhverjar gæsanna myndu lenda í veiði og nú hafa tvær fallið, Sjókall og Linda.  Það er ekkert við því að segja en það er ómetanlegt að fá sendinn til baka því þar sem hann er óskemmdur þá getum við notað hann áfram og því bíður okkar það verk að fanga nýja gæs til að bera sendinn.  Hvað hún mun heita á eftir að koma í ljós.  Sendirinn á Sjókalli var kostaður af MultiTask ehf.sem mun fá að velja nafnið á gæsinni sem fær sendinn næsta ár.

Sjokall-fallinnMynd birt með leyfi Orkney Goose Hunts.

---------------------------

Sjókallinn var veiddur milli flugvallarins og golfvallarins í Norðfirði þann 22. júlí ásamt gæsinni Sveini og ellefu ungum. Sjókallinn virðist vera óparaður og líklega geldfugl. Sjókallinn er með svart hálsmerki með bókstafnum I. Við merkinguna á Sjókallinum nutum við aðstoðar vinnuflokks frá Landsvirkjun ásamt Heimi Snæ Gylfasyni, framkvæmdastjóra MultiTask, Ísaki Ólafssyni og Dagnýju Ástu Rúnarsdóttur frá Náttúrustofu Austurlands. Þessum aðilum er þökkuð kærlega aðstoðin.

Senditækið á Sjókallinum er kostað af MultiTask ehf. og réðu þeir nafninu. Rannsóknaraðilar þakka MultiTask ehf. kærlega veittan styrk.

Hér er kort af ferðum allra gæsanna.

31.10.2016
Sjókall leggur land undir fót

Líkt og Skúli þá lagði Sjókallinn í hann til Orkneyja einhvern tíma að kveldi 18. október.  Klukkan 18 er hann í fjallshlíðinni upp af Norðfjarðarhöfn og leggur upp í farflugið eftir það. Næsta staðsetning sem hann geymir er svo tólf tímum seinna en þá er hann um 514 km suðaustur af landinu, miðja vegu milli Íslands og Færeyja. Sólarhring eftir að hann var síðast í Norðfirði er hann svo staddur rétt norður af Orkneyjum, líklega enn á flugi og búinn að fara um 1.700 km leið á innan við 24 klukkutímum sem er meðalhraði uppá rúmlega 70 km/klst. Hann er því að fara heldur hraðar en Skúli sem er á leiðinni á svipuðum tíma.  Á miðnætti aðfaranótt 20. október hefur Sjókallinn flogið yfir Sanday og er staddur yfir sjó en virðist svo vera kominn lítið vatn á Stronsay, sunnan við Sanday klukkan sex um morgun þar sem hann er líklega að nátta sig og hvíla eftir farflugið. Þaðan liggur svo leiðin í suður og á hádegi 20. október er hann að því er virðist í ræktarlandi á Shapinsay.  Daginn eftir er hann svo kominn á Mainland Orkney, norðaustur af Kirkwall og á þeim slóðum hefur hann haldið sig síðan.

Ef veðrið á leiðinni er skoðað sést að líkt og Skúli þá rétt sleppur Sjókallinn við sunnan hvassviðrið sem við upplifðum hér í vikunni sem þeir fóru af landinu. Á meðfylgjandi myndbandi sem búið er til með skjáskotum af síðunni https://earth.nullschool.net má sjá veðrið sem Sjókall upplifir á leiðinni og hvernig hvassir sunnanvindar eru skammt undan.
https://youtu.be/wT2ROCSTs44

Punktarnir hjá Sjókallinum voru færri en hjá Skúla og ástæðan er sú að rafhlaðan hjá honum var með minni hleðslu. Til að ganga ekki um of á rafhlöðuna og taka áhættu á að sendirinn hætti að virka þá fækkuðum við punktunum sem hann safnar og fækkuðum GSM sendingunum.  Eftir að Sjókallinn kom til Orkneyja þá er heldur bjartara þar og hleðslan hefur hækkað strax og við höfum fjölgað punktum sem Sjókall safnar á ný.

------------------------------------------------------------------------------------

 

Eins og sjá má á kortinu þá var Sjókallinn nokkuð staðbundinn fyrst í stað eftir merkingu.  Þegar líður á águst og hann verður fleygur fer hann að hreyfa sig um í Norðfirði og fara m.a. upp í brekkurnar í ber.  Svo þann 26. ágúst fer Sjókallinn í ferðir í Hellisfjörð og Viðförð, næstu firði sunnan Norðfjarðar.  Þar er ekki GSM samband þannig að á meðan hann dvaldi þar heyrðist ekki frá honum.  Þegar hann kom svo til baka 28. ágúst þá sendi hann okkur upplýsingar um hvar hann hafði dvalið meðan ekki náðist í hann.  Síðan þá hefur Sjókallinn aftur farið í firðina fyrir sunnan og einnig aðeins í Sandvík norðan Gerpis þar sem hann kom við 8. september.  Ekkert hefur heyrst frá Sjókallinum síðan aðfaranótt 13. september þar sem hann náttaði sig á leirunni sunnan Norðfjarðarflugvallar. Ekki er ólíklegt að hann hafi farið aftur í firðina suður af Norðfirði og sé þar utan símsambands.