Skúli

Skúli

Skúli var veiddur á Egilsstaðaflugvelli þann 21. júlí ásamt átta ungum og fimm fullorðnum gæsum. Skúi er með svart hálsmerki með bókstafnum Z og er paraður merktri gæs sem er með appelsínu litan hálshring með bókstöfunum NIT og er parið með einn unga.  Við merkinguna á Skúla nutum við aðstoðar vinnuflokks frá Landsvirkjun og starfsmanna Ísavia á Egilsstaðaflugvelli. Þessum aðilum er þökkuð kærlega aðstoðin.

Senditækið á Skúla er kostað af Lagastoð lögfræðiþjónusta ehf. og réðu þeir nafninu. Rannsóknaraðilar þakka Lagastoð lögfræðiþjónusta ehf. kærlega veittan styrk.

Hér er kort af ferðum allra gæsanna.

21.10.2016
Skúli leggur land undir fót

Eftir að hafa haldið til á Egilsstöðum, mest nærri bökkum Lagarfljóts, lagði Skúli land undir fót í vikunni.  Á þriðjudagskvöldið 18. október kl. 21 var hann í Flutningshöfðavík, sunnan Egilsstaða.  Einhvertíma eftir það leggur hann af stað í farflug suður á bóginn því þrem tímum seinna er hann staddur um 24 km suðvestur af mynni Reyðarfjarðar.  Eftir að hafa flogið um 336 km á innan við 6 klst. þá virðist hann hvílast um stund á sjónum því hann er enn nærri þeim stað þrem tímum seinna.  Þá er hann kominn á loft um kl 06:00 og heldur sem leið liggur í átt að Skotlandi.  Tólf tímum seinna virðist hann stoppa á ný vestur af Orkneyjum og halda kyrru fyrir í nærri 6 tíma.  Þá leggur hann í það á ný og flýgur í austur til Orkneyja og þegar hann kemur á sundið milli Mainland Orkney og eyjunnar Hoy um kl 06 þá tekur hann 90° beygju til norðurs og lendir á akri sunnan við vatn sem nefnist Loch Clumly þar sem næst spyrst til hans klukkan 09 þann 20 október.  Þetta er um 1.800 km leið ef farin er stysta leið og ferðin til Orkneyja tekur innan við 33 klukkutíma sem þýðir að meðalhraðinn hefur verið um 55 km/klst.

Ef veðrið á leiðinni er skoðað þá sést að Skúli rétt sleppur við sunnan hvassviðrið sem við upplifðum hér í vikunni.  Á meðfylgjandi myndbandi sem búið er til með skjáskotum af síðunni https://earth.nullschool.net má sjá veðrið sem Skúli upplifir á leiðinni.https://www.youtube.com/watch?v=wmUtW8pW16o

Nú verður spennandi að fylgjast með Skúla næstu vikur, hvort hann muni dvelja í Orkneyjum eða halda suður á bóginn, til Skotlands.

--------------------------------------

 

Eins og sjá má á kortinu þá hefur Skúli verið mjög staðbundinn og haldið sig að mestu með fjölskylduna á bökkum Lagarfljóts og í túnum við Egilsstaði.  Hann hefur ekki farið oft inn á flugvallarsvæðið en er talsvert í aðflugslínu að flugbrautinni sunnan við þjóðveginn.