Ferill mats á umhverfisáhrifum
Tillaga að matsáætlun
Drög að tillögu að matsáætlun eru í byrjun kynnt af
framkvæmdaraðila, fyrir umsagnaraðilum og almenningi. Framkvæmdaraðili bregst
við fengnum athugasemdum og í framhaldi af því er tillaga að matsáætlun send
til Skipulagsstofnunar. Stofnunin tekur tillöguna til meðferðar, óskar eftir
umsögnum og athugasemdum og birtir ákvörðun sína að málsmeðferð lokinni.
Ákvörðun Skipulagsstofnunar og tillaga framkvæmdaraðila mynda hina endanlegu matsáætlun,
sem unnið verður eftir í mati á umhverfisáhrifum.
Frummatsskýrsla
Mat framkvæmdaraðila á umhverfisáhrifum er sett fram í
frummatsskýrslu, sem unnin er í kjölfar ákvörðunar Skipulagsstofnunar um
matsáætlun. Við gerð hennar er eftir atvikum haft samráð við leyfisveitendur,
ýmsar stofnanir, hagsmunaaðila og félagasamtök. Á meðan Skipulagsstofnun hefur
frummatsskýrsluna til meðferðar gefst almenningi kostur á að kynna sér
niðurstöður umhverfismatsins og koma með athugasemdir við frummatsskýrsluna.
Matsskýrsla og álit Skipulagsstofnunar
Að loknum kynningartíma frummatsskýrslu fær
framkvæmdaraðili í hendur þær umsagnir og athugasemdir sem hafa borist og eftir
atvikum einnig umsögn Skipulagsstofnunar um atriði sem taka þarf sérstaklega á
í endanlegri matsskýrslu. Framkvæmdaraðili bregst við þeim efnisatriðum sem þar
koma fram og gerir grein fyrir í matsskýrslu. Matsferlinu lýkur með áliti
Skipulagsstofnunar á matsskýrslu framkvæmdaraðila.
Sótt um leyfi
Þegar mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar er lokið
sækir framkvæmdaraðili um framkvæmdaleyfi til viðkomandi sveitarfélags og eftir
atvikum annarra leyfisveitenda. Leyfisveiting skal taka mið af mati á
umhverfisáhrifum.