Mat á umhverfisáhrifum aukinnar framleiðslu í eldisstöð Stofnfisks í Vogavík

Eldisstöð Stofnfisks í Vogavík - Aukning á framleiðslu

  • Mat á umhverfisáhrifum-kynning

Stofnfiskur hf. vill auka framleiðslu á laxi um allt að 250 tonn. 

Stofnfiskur hf. hefur leyfi fyrir allt að 200 tonna framleiðslu á laxi í eldisstöðinni við Vogavík í Sveitarfélaginu Vogum. Til stendur að auka framleiðslu á laxi í allt að 450 tonn til að auka hrognaframleiðslu fyrirtækisins og felur framkvæmdin í sér seiðaeldi sem verður ný starfsemi í stöðinni. 

Vegna meiri framleiðslu í eldisstöðinni þarf að auka vinnslu á grunnvatni um 400 l/sek, þannig að heildarvinnslan verði tæplega 1.400 l/sek.

Markmið framkvæmdarinnar er að ala lax til kynbóta í eldisstöðinni, frá frjóvguðum hrognum þar til fiskurinn er kynþroska. Einnig að vatnsvinnsla stöðvarinnar geti mætt aukinni þörf á eldisvatni vegna framleiðsluaukningarinnar. Stofnfiskur áformar að höfuðstöðvar fyrirtækisins verði í Vogum í framtíðinni.

Verkís hefur unnið að mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar og eru niðurstöður matsins settar fram í frummatsskýrslu sem nú er til kynningar.

Í frummatsskýrslunni er fjallað um framkvæmdina, staðháttum á framkvæmdasvæði er lýst og fjallað um skipulag og verndarsvæði. Fyrirhuguðum framkvæmdum og framleiðsluferli er lýst. Í mati á umhverfisáhrifum er fjallað um líkleg áhrif framkvæmdanna á jarðmyndanir, grunnvatn, lífríki í fjöru og á grunnsævi, fugla og fornleifar. Þá er fjallað um vöktun, samráð og kynningu. Í lok skýrslunnar er heildarniðurstaða matsins tekin saman.

Allir geta kynnt sér frummatsskýrslu og lagt fram athugasemdir. Athugasemdir við frummatsskýrslu skal senda til Skipulagsstofnunar, í tölvupósti á skipulag@skipulag.is eða í bréfi á Skipulagsstofnun, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík.

Athugasemdum skal skila eigi síðar en 15. október 2020.

Frummatsskýrsluna má nálgast hér.
Viðauka með frummatsskýrslu má nálgast hér 

Þann 9. september sl. var haldið opið hús í Tjarnarsal, Stóru- Vogaskóla, þar sem kynnt var mat á umhverfisáhrifum aukinnar framleiðslu í eldisstöð Stofnfisks í Vogavík. Fyrirkomulag fundarins var með þeim hætti að upplýsingar um framkvæmdina og umhverfisáhrif hennar voru settar fram á veggspjöldum og fulltrúar frá Stofnfiski og Verkís voru á staðnum til að svara fyrirspurnum. Veggspjöldin má nálgast hér

Upplýsingar um feril mats á umhverfisáhrifum má nálgast hér.