Sundabakki á Ísafirði

Dýpkun við Sundabakka á Ísafirði – mat á umhverfisáhrifum

  • Sundabakki Ísafjörður

Ísafjarðarbær áformar frekari uppbyggingu á Sundabakka í Skutulsfirði. Fyrirhugað er að lengja Sundabakkann um 300 m og dýpka framan við bakkann í allt að 11 m dýpi. Verkís hefur unnið frummatsskýrslu vegna mats á umhverfisáhrifum. 

Fyrirhugað er að stækka viðlegukantinn við Sundabakka á Ísafirði og auka sjávardýpi utan hans þannig að stærri og fleiri skip geti lagst að bryggju. Framkvæmdinni er ætlað að auka fjölbreytni og þjónustu við nýtingu hafnarinnar sem og auka tekjur hennar. 

Lengja á kantinn um allt um 300 m og auka dýpi við bakkann í allt að 11 m. Um 90.000 m3 af uppdælda efninu verða nýttir í landfyllingu við hafnarkantinn. Heildarmagn uppdælds efnis verður allt að 410.000 m3 og verður það nýtt eins og kostur er í aðrar framkvæmdir. 

Framkvæmdin er í samræmi við aðal- og deiliskipulag. Dýpkunin er háð mati á umhverfisáhrifum. Metnir eru tveir valkostir með misumfangsmikilli dýpkun. Áhrif á strauma, öldufar og rof eru metin óveruleg og áhrif á samfélag eru metin óveruleg og talsvert jákvæð. Áhrif á lífríki sjávar (botndýralíf) eru metin nokkuð neikvæð og áhrif á fugla óveruleg til nokkuð neikvæð.

Upplýsingar um kynningu eða aðkomu almennings:

Ísafjarðarbær leggur fram frummatsskýrsluna um dýpkun við Sundabakka.
Allir geta kynnt sér hana og gert athugasemdir.

Frummatsskýrsla er aðgengileg hér og á Safnahúsinu Ísafirði og Skipulagsstofnun.

Einnig hefur verið opnuð vefsjá þar sem frummatsskýrslan er kynnt á aðgengilegan hátt.  

Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 5. janúar 2021 til Skipulagsstofnunar eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is. Einnig er velkomið að hafa samband við Ísafjarðarbæ og ráðgjafa:

Guðmundur M. Kristjánsson, hafnarstjóri (hofn@isafjordur.is)
Gunnar Páll Eydal, umhverfis- og auðlindafræðingur hjá Verkís (gpey@verkis.is)

Ísafjarðarbær hefur opið hús á 4. hæð í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði á milli kl. 16 og 18 fimmtudaginn 10. desember. Þar verður hægt að nálgast upplýsingar um framkvæmdina og umhverfismatið. Upplýsingar um verkefnið verða einnig aðgengilegar á veggspjaldi á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði 9.-21. desember. 

Upplýsingar um feril mats á umhverfisáhrifum má nálgast hér.