3/11/2017

Ásgeir Trausti varpaði vínylplötu í hafið

  • Flöskuskeytið Ásgeir Trausti

Nú fyrir skömmu varpaði tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti 7“ vínylplötu í hafið úr þyrlu. Platan var í sérstöku flöskuskeyti sem er hannað og smíðað af Verkís. Skeytið er hluti af fjársjóðsleit sem tónlistarmaðurinn stendur fyrir um allan heim en þessi hluti verkefnisins hefur fengið nafnið Album in a Bottle.

Nú þegar hefur farið fram fjársjóðsleit í Bandaríkjunum, Ástralíu, Frakklandi, Bretlandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, á Spáni, í Póllandi og Hollandi. Í næstu viku verða tvær plötur faldar í Japan. Í gær var röðin komin að Íslandi og fann einn heppinn aðdáandi plötu á Græna hattinum á Akureyri. Verkefnið náði svo hámarki í dag þegar skeytinu var varpað í sjóinn við Ísland.

Í flöskuskeytinu er GPS-staðsetningarbúnaður og gervihnattasendir sem gerir fólki kleift að fylgjast með ferðalögum plötunnar á heimasíðu Verkís og Ásgeirs Trausta. Hér er hægt að fylgjast með skeytinu

Verkefninu er ætlað að vekja athygli á sjávarmengun, einkum plastmengun, með því að sýna fram á að það sem fer í sjóinn hverfur ekki, heldur ferðast um heimsins höf og rekur á strendur annars staðar.

Í sumar var Ásgeir Trausti heilan sólarhring í hljóðveri þar sem hann tók upp tónlist beint á vínylplötu og sýndi RÚV beint frá upptökunum. Ákvað hann að nota nokkrar þeirra í fjársjóðsleit og gefa aðdáendum sínum þannig tækifæri á að eignast þær. Platan í skeytinu sem fleygt út úr þyrlunni í dag er ein af þeim og verður spennandi að sjá hverjum tekst að finna það.

IMG_1670[1]Það eru þeir Arnór Þór Sigfússon, dýravistfræðingur, Ármann E. Lund (til vinstri á myndinni), véltæknifræðingur og Vigfús Arnar Jósefsson (til hægri á myndinni), vélaverkfræðingur, sem hönnuðu og smíðuðu skeytið en það byggir á gulu skeytunum tveimur sem send voru af stað snemma árs 2016 í samvinnu við Ævar vísindamann. 

Verkefnið unnið í samvinnu við RÚV, Ævar vísindamann og Ásgeir Trausta. 

Heimasíða Ásgeirs Trausta