2/11/2017

Ástandsgreining fráveitukerfis á Vestfjörðum

  • Skutulfjörður

Verkís tók að sér ástandsgreiningu fráveitukerfis sveitarfélagsins í þéttbýlisstöðunum á Ísafirði, Hnífsdal, Suðureyri, Flateyri og á Þingeyri, að undangenginni verðkönnun á vegum tæknideildar Ísafjarðarbæjar. 

Farið var í nokkrar vettvangsferðir vorið 2017 og allar útrásir í þéttbýliskjörnum skoðaðar og myndaðar. Rennslismælingar voru gerðar í helstu stofnlögnum og tekin sýni á tveimur stöðum til að meta fjölda persónueininga. 

Þá voru jafnframt  tekin punktsýni á níu stöðum í Pollinum og fyrir utan hann til að fá hugmynd um styrk á gerlamengun. Straumlíkan var sett upp til að meta þynningarsvæði mengunar.

Tillögur að úrbótum ásamt kostnaðaráætlun voru gerðar fyrir hvern stað fyrir sig til að meta umfangið með því augnamiði að kerfin standist þau ákvæði sem sett eru fram í reglugerð um fráveitur og skólp.

Meðal aðgerða í verkefninu, til að meta álagið á fráveitukerfið og flutningsgetu aðalstofna,  voru rennslismælingar framkvæmdar í nokkrum brunnum á Ísafirði.  Þannig var hægt að leggja mat á fjölda persónueininga sem veitt er út í viðtakann. Rennsli í þeim útrásum sem ekki var hægt að mæla í var áætlað út frá fjölda íbúa tengdum þeim. Sýnatökur fóru jafnframt fram á tveimur stöðum.

Til að meta hvernig viðtakinn tekur við skólpi og brýtur það niður er mikilvægt að skoða strauma viðtakans. Því var sett upp tölvulíkan til að skoða strauma og þynningu skólps.

Mynd-af-utras

Mynd af útrás.

Tölvulíkanið hermir flæði inn og út úr firðinum vegna sjávarfalla. Til að herma dreifingu skólpsins þá er efni sem fylgir straumum í firðinum sprautað út í fjörðinn frá staðsetningu útrása sem talið var að mikilvægt væri að skoða. Líkanið er þrívítt og tvífasa að því leyti að það hermir bæði haf og andrúmsloft sem verkar ofan á sjávaryfirborðið.

Í hverju tilfelli voru nokkur sjávarföll hermd með sjávarhæðarbreytingu sem svipar til þegar það er stórstreymt í Skutulsfirði. Niðurstöðurnar eru notaðar til að meta hvaða svæði henta betur en önnur varðandi staðsetningu útrása, sérstaklega að skoða hvort grípa þurfi til aðgerða á svæðum sem sýna staðbundna söfnun skólps og hreinsa sig illa.