14/11/2017

Dariali-vatnsaflsvirkjunin opnar Verkís nýjar dyr í Georgíu

  • dariali

Framkvæmdum við Dariali-vatnsaflsvirkjunina í ánni Tergi í Georgíu, sem hófust árið 2011, er lokið og hefur virkjunin verið vígð. Verkís er aðalhönnuður verkefnisins og vann það í nánu samstarfi við Landsvirkjun Power, auk fyrirtækja í Georgíu. 

Verkís sá um verkhönnun, útboðsgögn, aðstoð við samninga og alla deilihönnun, sem var að hluta til unnin af undirverktökum í Georgíu.

Georgíumenn standa framarlega í gerð vatnsaflsvirkjana en hafa ekki mikla reynslu af því að gera jarðgöng við slíkar virkjanir. Þar sem grafa þurfti jarðgöng við Dariali-virkjunina varð að sækja þá þekkingu annað og var ákveðið að leita til Íslands. Landsvirkjun Power og Verkís búa að þekkingu og reynslu sem fyrirtækin hafa meðal annars aflað við gerð Kárahnjúkavirkjunar og virkjana á Grænlandi og er það ástæða þess að fyrirtækin voru valin til að vinna verkið í Georgíu.

Jarðgangagerð á Íslandi hefur einkum byggst á reynslu frá Noregi þar sem beitt hefur verið hagkvæmum aðferðum við bergstyrkingar. Þessi þekking og reynsla leiddi meðal annars til þess að leitað var til íslenskra aðila við hönnun Dariali.

Dariali_1

Starfsmenn Verkís sem héldu utan um verkefnið segja að það hafi verið viss þröskuldur að komast inn á markaðinn í Georgíu. Eftir að fyrirtækið komst þangað, náði að sýna sig og sanna og mynda tengsl hafa orðið til fleiri tækifæri tengd vatnsaflsvirkjunum en einnig í öðrum geirum, svo sem jarðvarma og samgöngum. Í því síðastnefnda eru mörg tækifæri, meðal annars á sviði jarðganga í Kákasusfjöllunum. Verkís fagnar þessu og hlakkar til að taka þátt í uppbyggingu innviða í Georgíu.

Þá fengu starfsmenn Verkís einnig að kynnast öðrum aðferðum til að fást við aurburð en notaðar hafa verið hér á landi. Áin Tergi, sem var virkjuð, er gríðarlega brött og jafnhalla og því var ekki hægt að gera lón sem tekur við aurnum, líkt og yfirleitt er gert á Íslandi. Þetta er vandamál sem Georgíumenn hafa reynslu af og fengu starfsmenn Verkís tækifæri til að læra af þeim. Við inntaksmannvirki var byggð gríðarstór setþró til þess að láta aurinn setjast svo hann berist ekki inn í vélarnar og valdi auknu sliti á þeim. Honum er svo skolað út um sérstakar lokur áður en setþróin fyllist. 

Dariali_2

Tæknileg atriði
Virkjunin er í ánni Tergi, sem á upptök sín í Kákasusfjöllunum í Georgíu en rennur til norðurs inn í Rússland, sveigir til austurs og endar í Kaspíahafi. Um er að ræða rennslisvirkjun þar sem byggð var lág stífla með yfirfalli, flóðgáttarlokum, aurskolunarlokum, stöðvarinntaki og setþró. Þaðan rennur vatnið um tveggja kílómetra langar, niðurgrafnar stálpípur sem tengjast sex kílómetra löngum aðrennslisgöngum. Göngin voru boruð með gangaborvél frá Robbins í Bandaríkjunum sem er sérstaklega ætluð fyrir harðar bergtegundir. Slíkar vélar voru meðal annars notaðar við gerð Kárahnjúkavirkjunar.

Við enda aðrennslisganganna eru um 40 metra löng, lóðrétt og stálfóðruð þrýstigöng sem tengd voru við þrjá Pelton-vatnshverfla í stöðvarhús neðanjarðar. Vatninu er svo veitt aftur í ána Tergi í gegnum 400 metra löng frárennslisgöng. Hönnunarrennsli er 33 rúmmetrar á sekúndu og brúttó fallhæð er 390 metrar. Raforkan er flutt frá rafölum stöðvarinnar með strengjum sem liggja í sérstökum strengjagöngum að aflspennum og tengivirki ofanjarðar og þaðan  um 110 kV háspennulínu inn á flutningskerfi landsins.

Dariali_3