13/10/2017

Endurbótum á Laxárvirkjun III lokið

  • Laxárvirkjun

Endurbótum á Laxárvirkjun III er lokið og standa vonir til að áratugalangur rekstrarvandi virkjunarinnar sé nú úr sögunni. Verkís lagði til nýja lausn á rekstrarvandanum en hún fólst í breytingum á inntaki og stíflu virkjunarinnar án vatnsborðshækkunar. 

Virkjunin hefur verið rekin með þessum breytingum í nokkra mánuði og segir Guðmundur Stefánsson, stöðvarstjóri Laxárvirkjunar, þær lofa góðu.

Frá byggingu stíflunnar árið 1939 hafa rekstrarvandamál verið óvenju mikil vegna ísburðar í ánni og mikils sandskriðs. Að auki kom fyrir að grjót barst með ís inn í vélar. Sandurinn hafði þau áhrif að það var eins og vélarnar væru stanslaust í sandblæstri og ísinn olli miklu álagi.

Steinar brutu upp úr blöðum og boltar brotnuðu vegna titrings sem þeir ollu þegar grjót festist á leið sinni um vélar. Fyrir vikið var líftími véla helmingi styttri en í öðrum virkjunum auk þess sem árlega þurfti að ráðast í viðgerðir. Þar að auki var stíflan það lág að í flóðum kom oft fyrir að vatn flæddi yfir stífluna sjálfa en ekki eingöngu á yfirfalli.

Stíflan var upphaflega reist fyrir Laxá I árið 1939. Síðar komu upp hugmyndir um stærri stíflu með mikilli miðlun og var bygging Laxár III árið 1973 fyrsti áfanginn í byggingu þeirrar virkjunar en þá voru göngin gerð ásamt stöðvarhúsi og önnur vél af tveimur áformuðum tekin í notkun. Stíflan, sem reisa átti, mætti andstöðu og var að lokum blásin af. 

Síðan þetta var hefur reksturinn haldist slæmur og oft komið niður á orkuöryggi á svæðinu. Öðru hvoru var reynt að fara málamiðlunarleið þar sem lægri stíflur voru skoðaðar en engin þeirra tillaga fékk brautargengi. Loks var ákveðið að hverfa alfarið frá hinum venjubundnu lausnum á ísa- og aurburðarvandamálum sem felast í stóru lóni sem getur gleypt vandamálið og ákveðið að skoða frekar hvort mögulegt væri að nálgast málið á annan hátt.

Verkís var falið að finna lausn þar sem reynt væri að hindra ís, sand og grjót í að berast niður í stöðvarhús og takmarka rennsli í flóðum við yfirföll. Á sama tíma þurfti að passa upp á umhverfið og ána þar sem hún er vernduð og taka tillit til veiðifélaga á svæðinu. Ein forsendan var til dæmis að venjuleg vatnshæð við stífluna mætti ekki breytast.

Eftir veturlanga skoðun á ísalögnum við inntakið og skoðun allra tiltækra gagna um ís og aurburð í Laxá var niðurstaða ráðgjafa Verkís að eina leiðin væri:

  • Sískolun á ískrapa um yfirfall, staðsettu yfir inntaki virkjunarinnar, sem leiðir ísinn framhjá inntakinu í gilið neðan við stífluna.
  • Regluleg skolun á sandi og grjóti, þ.e. gryfjur í inntaki grípi grjót og sand. Gryfjurnar eru tæmdar á nokkurra daga fresti um pípukerfi sem skolar efninu framhjá inntakinu í gilið neðan við stífluna.
  • Hækkun stíflunnar á þeim stöðum sem ekki má renna yfir. 


Samhliða þessum aðgerðum var hverfillinn og ýmiss annar búnaður í virkjuninni endurnýjaður/lagfærður. 

Frétt Stöðvar 2 um breytingarnar 
Fyrri frétt Verkís um breytingarnar á Laxárvirkjun III

Laxarvirkjun_4