3/7/2017

Endurnýjun vélbúnaðar í gufustöðinni við Bjarnarflag

  • bjarnarflag

Verkís vinnur að ráðgjöf og hönnun fyrir Landsvirkjun vegna endurnýjun vélbúnaðar og rafbúnaðar í Bjarnarflagsstöð í Mývatnssveit. 

Stöðin, sem heimamenn nefna jafnan „Gufustöðina“, er elsta gufuaflsstöð landsins, gangsett 1969. Gufuhverfillinn var fenginn notaður úr sykurverksmiðju í Bretlandi, en hann var smíðaður 1934.

Landsvirkjun hefur samið við Green Energy Geothermal (GEG) um kaup á hverfli og rafala ásamt tilheyrandi búnaði. Verkís kom fyrst að þessu verki snemma árs 2015 með gerð hagkvæmniathugunar.

Í framhaldi af því var farið í verðfyrirspurn sumarið 2015 með það fyrir augum að festa kaup á vélasamstæðu. Aðferðafræði innkaupanna var borin undir úrskurðarnefnd útboðsmála, sem úrskurðaði að verkið væri útboðsskylt á EES svæðinu. Því var verkið boðið formlega út og tilboð opnuð 30. ágúst 2016. Gengið var frá samningi um kaup á vélasamstæðunni 10. febrúar 2017 og stefnt er að gangsetningu 2. maí 2018.

Samningurinn við GEG nær eingöngu til rafala og hverfils ásamt tilheyrandi stjórnbúnaði. Verkís vinnur nú að hönnun og gerð útboðsgagna á tveimur verkum sem boðin verða út í sumar.

Annars vegar er um að ræða rafbúnaðarverk sem inniheldur allan aflbúnað, varnarbúnað vélasamstæðunnar og allan stjórnbúnað sem ekki tilheyrir vélasamstæðunni beint, ásamt endurnýjun á tengingu stöðvarinnar við dreifikerfi RARIK.

Hins vegar er um að ræða byggingaverk sem innifelur breytingar á húsnæði virkjunarinnar fyrir hinn nýja búnað ásamt nauðsynlegu viðhaldi á byggingunni, sem er orðin tæplega fimmtíu ára gömul. Í byggingaútboðinu eru einnig undirstöður fyrir lagnir.

Aðstæður í Bjarnarflagi eru þannig að ekki er hægt að leggja lagnir neðanjarðar vegna hita í jörðu. Því verða strenglagnir hafðar á strengjastiga ofanjarðar og verður stiganum lokað með gataplötu til að verjast ágangi sólar, nagdýra og mannfólks. Verkís vinnur einnig við ráðgjöf um kaup á ýmsum búnaði sem Landsvirkjun kaupir beint, svo sem vélarspenni, rafalarofa, háspennustreng og nýjum víraflóka í dropaskilju.