1/3/2017

Er leiðin greið?

Málþing um algilda hönnun í almenningsrými – í borgum, bæjum og á ferðamannastöðum.

  • Málþing um algilda hönnun í almennigsrými

Aðgengishópur Öryrkjabandalags Íslands, Blindrafélagið, Verkís hf., Átak- félag fólks með þroskahömlun og Reykjavíkurborg bjóða til málþings um algilda hönnun utandyra, í þéttbýli og á ferðamannastöðum. 

Málþingið er haldið í samvinnu við Umhverfisráðuneytið, Ferðamálastofu, Mannvirkjastofnun og Vegagerðina.

Tveir starfsmenn Verkís, Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir og Berglind Hallgrímsdóttir verða með fyrirlestur um Hönnun í útiumhverfi - úttekt og samanburður á norrænum hönnunarreglum.

Tími: föstudagurinn 10. mars, kl. 9:00-13:00
Staður: Grand hótel, Sigtúni 38, 105 Reykjavík
Skráning: www.obi.is fyrir 3. mars
Dagskrá málþingsins.

Málþingið er haldið í tengslum við alþjóðlegan dag aðgengis sem er 11. mars. Fjallað verður um aðgengismál innan byggðar og á ferðamannastöðum. Kynnt verður ný rannsóknarskýrsla sem unnin var af verkfræðistofunni Verkís, en tilgangur verkefnisins var að gera ítarlega úttekt á hönnunarreglum og stöðlum sem lúta að algildri hönnun í útiumhverfi í Svíþjóð, Danmörku og Noregi og bera saman við íslenskar reglur og staðla.

Brugðið verður ljósi á aðgengisþarfir fatlaðs fólks í almenningsrými innan byggðar og af hverju algild hönnun er mikilvæg við skipulagningu gatna og torga. Kynntur verður leiðbeiningarbæklingur sem aðgengishópur ÖBÍ gefur út á málþinginu.

Gerð verður grein fyrir stöðu aðgengismála á ferðamannastöðum á Íslandi. Sagt verður frá niðurstöðum úr ferð aðgengishóps Átaks – félags fólks með þroskahömlun, sem birtar voru í nýlegri skýrslu. Veitt verður aðgengisviðurkenning Reykjavíkurborgar í fyrsta sinn. Fulltrúar frá Ferðamálastofu, Mannvirkjastofnun og Vegagerðinni halda erindi á málþinginu og Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra flytur ávarp.

Málþingið er ókeypis og öllum opið. Boðið verður upp á veitingar í hádeginu.
Rit- og táknmálstúlkun er í boði – óska þarf eftir túlkun við skráningu á málþingið.