1/11/2017

Fimm nemar frá Kenía hjá Verkís

  • Lokahóf nemenda Kenía

Síðustu vikur hafa fimm nemar frá Kenía verið hjá Verkís og lært um gufuveitur og hlotið þjálfun í gerð hagkvæmnisathugana fyrir baðlón.

Mushiyi Akali James, Edwin Ochieng Odum og Richmond Barasa Ogutu frá Geothermal Development Company (GDC) í Kenía komu til Íslands á vegum utanríkisráðuneytisins til að læra um gufuveitur. Þeir voru hér á landi í fjórar vikur. 

Fyrstu vikuna voru þeir hjá Mannviti að fræðast um forhönnun á gufuveitum. Aðra vikuna komu þeir til Verkís og fengu að fræðast um deilihönnun á gufuveitum. Því næst fóru þeir aftur til Mannvits að læra um áætlanagerð og síðustu vikuna voru þeir hjá Verkís þar sem farið var í rekstur og viðhald á gufuveitum. Þessir starfsmenn munu vinna við að reka nýja gufuveitu GDC í Menengai í Kenía og var dvöl þeirra á Íslandi liður í að undirbúa þá fyrir það.

Esther Nyambura og Japhet Kipkorir frá Geothermal Development Company (GDC) í Kenía voru hjá Verkís síðastliðnar fjórar vikur til að kynnast hönnun sundlauga og baðstaða ásamt því að vinna hagkvæmniúttekt á náttúrulegum baðstað í Menengai í Kenía, að íslenskri fyrirmynd. Í leiðinni tóku starfsmenn að sér að kynna fyrir þeim íslenska baðmenningu í Nauthólsvík eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.