23/11/2017

Flöskuskeytið strandaði við Lambhólma en hefur verið sjósett að nýju

Flöskuskeytið inniheldur vínylplötu Ásgeirs Trausta (Album in a bottle)

  • Lagarfoss

Þann 3. nóvember síðastliðinn varpaði tónlistarmaðurinn Ásgeir Trausti flöskuskeyti, sem inniheldur 7“ vínylplötu, úr þyrlu í hafið skammt vestur af Reykjanesskaga. Til að byrja með var skeytið í Faxaflóa en endaði síðan í Breiðafirði þar sem það strandaði við Lambhólma, einni af fjölmörgum eyjum í firðinum. 

Breiðafjörður er stór og grunnur fjörður við vesturströnd Íslands en þar eru flestar eyjar á Íslandi, eða hátt í þrjú þúsund.  Sjávarfallastraumar eru víða miklir og sigling milli eyja getur því verið hættuleg.  

Af öryggisástæðum var ákveðið að fá þá félaga Atla Sigurþórsson hjá Dekk og Smur í Stykkishólmi og Kristinn Pálsson, sem þekkja vel til á svæðinu til þess að sækja skeytið. Ferð þeirra félaga gekk mjög vel og þökkum við þeim kærlega fyrir aðstoðina.

Góðu fréttirnar eru þær að flöskuskeytið með vinylplötu Ásgeirs er farið í annað ferðalag en við fengum Eimskip í lið með okkur til þess að koma skeytinu aftur í hafið.

Jón Ingi, skipstjóri á Lagarfossi tók við skeytinu rétt áður en Lagarfoss hélt í sína hefðbundnu ferð til Rotterdam. Flöskuskeytinu var svo kastað fyrir borð skammt frá Höfn í Hornafirði og hefur nú gefið frá sér fyrsta merki um staðsetningu, það er því spennandi ferðalag framundan.
Hér er hægt að fylgjast með ferð skeytisins. 

Við vonumst til að flöskuskeytið nái næst landi þar sem auðveldara og öruggara verður fyrir almenning að nálgast það.

Verkefninu er ætlað að vekja athygli á sjávarmengun, einkum plastmengun, með því að sýna fram á að það sem fer í sjóinn hverfur ekki, heldur ferðast um heimsins höf og rekur á strendur annars staðar. 

IMG_8891

Ármann Lund, véltæknifræðingur (til vinstri) og einn þeirra sem hönnuðu og smíðuðu skeytið hjá Verkís með Jóni Inga Þórarinssyni, skipstjóra Lagarfoss. 

Fyrri fréttir um flöskuskeytið
Ásgeir Trausti varpaði vínylplötu í hafið
Plata Ásgeirs Trausta í flöskuskeyti frá Verkís