8/12/2017

Forathugun á nýtingu jarðhita til húshitunar í Póllandi

Verkís tekur þátt í verkefninu sem hluti af teymi Orkustofnunar. 

  • Borhola poddebice

Miklir möguleikar eru fyrir hendi á nýtingu jarðhita til kyndingar í Póllandi og til að vel takist til er nauðsynlegt að höfð sé samvinna með færustu sérfræðingum á sviði nýtingar jarðhita og húshitunar.

Í því skyni var í júlí á þessu ári komið á fót alþjóðlega verkefninu Geothermal energy: a basis for low-emission heat generation, improvement of living conditions, and sustainable development – preliminary studies for selected areas in Poland. 

Verkefninu er ætlað að styrkja þróun jarðhitanýtingar í Póllandi og efla frumkvæði ríkisstjórnar landsins. Gerð verður forathugun á framtíðaruppbyggingu hitaveitu í þessum bæjum, auk þess sem lagðar eru fram tillögur að tilraunaverkefnum á hverjum stað. 

Þátttökulöndin tvö frá EES, Ísland og Noregur, eru brautryðjendur í jarðhitatækni, hið fyrra í almennri nýtingu jarðhita, hið seinna í lághitanýtingu varma með varmadælum. Húshitun með jarðhitavatni er enn skammt á veg komin í Póllandi, þrátt fyrir góðar aðstæður til vinnslu jarðhita víða um landið. 

Verkefnið felst í skoðunarferðum um Pólland, Noreg og Ísland, tveimur ráðstefnum og vinnslu lokaskýrslu, þar sem tillögur að framtíðarútfærslu jarðhitaveitu á hverjum stað eru kynntar, ásamt almennum ráðleggingum um uppbyggingu hitaveitu í öllu landinu.

Óskar Pétur Einarsson, vélaverkfræðingur hjá Verkís, hefur unnið verkefnið fyrir hönd Verkís. Hann kynnti eftirfarandi niðurstöður á ráðstefnu í Varsjá í Póllandi í lok október. 

Konstanynów Łódzki
Í bænum, sem er skammt fyrir vestan stórborgina Łódz, búa um 18 þúsund manns. Ekki hefur verið boruð vinnsluhola en út frá jarðfræðupplýsingum á svæðinu er gert ráð fyrir 100 m³/klst rennsli af 70°C vatni.

Tillaga að tilraunaverkefni: Að nota hluta jarðhitavökvans til að hita og aflofta kalt vatn fyrir lokaða hringrás dreifikerfis í Łódz, sem þjónar  um 400 þúsund íbúum. Lekinn í því dreifikerfi, sem er gríðarstórt, er um 20 m³/klst og með jarðhitavökvanum má spara eldsneytisnotkun sem nemur u.þ.b. 1,2 MW, t.d. með gas- eða kolahitun.

Poddębice
Í bænum, sem einnig er í nágrenni stórborgarinnar Łódz, búa um átta þúsund manns. Þar er borhola sem gefur allt að 250 m³/klst af 70°C heitu vatni. Ofnakerfi bæjarins er hannað fyrir háhitaveitu (90/70°C fram-/bakrásarhita) og er bakvatnshitastig jarðhitavökva frá þessari veitu því einungis um 50°C.

Þessu vatni er kastað út í kælitjörn, þaðan sem það rennur út í á. Bæði er gerð tillaga um að lækka bakrásarhitann með varmadælu en einkum þó að endurbæta ofnakerfi í húsum bæjarins, þannig að bakrásarhiti verði lægri en hann er í dag.

Tillaga að tilraunaverkefni: Setja upp ofna sem hannaðir eru fyrir 70/30°C fram-/bakvatnshitastig og mæla árangurinn af slíkum ofnum, t.d. yfir eitt ár og bera saman við afköst núverandi ofna í sambærilegri íbúð.

Sochaczew
Í bænum, sem er um 50 kílómetrum vestur af Varsjá, búa um 37 þúsund manns. Ekki hefur enn verið boruð vinnsluhola en út frá jarðfræðiupplýsingum á svæðinu er gert ráð fyrir 120 m³/klst rennsli af 40°C vatni, sem unnið er af um það bil 1,5 km dýpi. Nota þarf varmadælu ef nýta á vatnið til kyndingar. Vatnið er talið mjög hreint úr þessari lind og er ætlunin að nota það sem drykkjarvatn eftir að það hefur verið kælt með varmadælum.

Tillaga að tilraunaverkefni: Setja upp sérstaka gerð ofna, sem nota 40°C vatn og eru útbúnir með viftu og hitaspíral, sem nýtir varma úr lághitavatni mun betur en hefðbundnir ofnar. Þar sem reiknað er með nokkuð hreinu vatni er lagt til að það sé notað beint inn á þessa ofna.

Lądek-Zdrój
Bærinn er í Sudetes-fjöllunum, sunnan Wrocław, við landamærin að Tékklandi. Þar búa um sex þúsund manns. Ekki hefur enn verið boruð vinnsluhola en út frá jarðfræðiupplýsingum á svæðinu er gert ráð fyrir 50 m³/klst rennsli af 70°C vatni, sem unnið er af um það bil tveggja kílómetra dýpi.

Tillaga að tilraunaverkefni: Setja upp snjóbræðslukerfi í bænum sem nýtir beint bakrás jarðhitavökva (30-40°C). Í bænum er mjög fjallent og brattar götur sem verða hálar á veturna. Þetta yrði fyrsta jarðhitasnjóbræðslan í landinu.

Verkís kynnir niðurstöður vegna hitaveitu í Poddebice í Póllandi