21/11/2017

Framkvæmdir við Glerárvirkjun í fullum gangi

  • Glerárvirkjun

Framkvæmdir við nýja Glerárvirkjun ofan Akureyrar eru nú í fullum gangi. Virkjunin verður rúmlega þrjú MW og fer allt rafmagn frá henni beint inn á raforkukerfi Akureyrarbæjar. 

Verkís sér um gerð aðalteikninga fyrir stíflumannvirkið og umsókn byggingarleyfis. Einnig sér Verkís um gerð útboðsganga og alla deilihönnun mannvirkisins. Hönnunarvinnunni er að mestu lokið en stöðug eftirfylgni verður með verkinu út verktímann.

Glerárstífla er 95 m löng og 6 m há steinsteypt stífla í Glerárdal á Akureyri og mun þjóna Glerárvirkjun II. Stíflan samanstendur af yfirfalli, botnrás og inntaksmannvirki en til sitt hvorrar hliðar eru fyllingarstíflur með steyptum þéttivegg. 

Síðastliðna mánuði hefur verið unnið að því að steypa undirstöður fyrir stífluna. Lónið á bakvið hana verður um einn hektari og mun það ná um það bil 200 metra frá stíflunni upp í landið.

Yfirfallið er 12 m langt með bogalaga formi að ofan. Botnrásin er 2x1,5 m og verður lokuð með vökvastýrðri botnrásarloku. Inntaksmannvirkið samanstendur af inntaksþró og lokahúsi. Vatninu verður veitt um inntaksrist inn í inntaksþróna þaðan sem það fer um rörbrotsloka sem staðsettur er í lokahúsi og þaðan inn í þrýstipípuna.

Umfjöllun RÚV um verkefnið

Ljósmynd/Efla