15/1/2016

Fylgst með flöskuskeytum í gegnum gervitungl

Verkís og Ævar vísindamaður hafa sjósett tvö flöskuskeyti.  Inni í hvorri flösku er GPS - staðsetningarbúnaður og gervihnattasendir sem sendir frá sér staðsetningu 6 sinnum á dag í gegnum gervitungl.Hönnun flöskuskeyta
Inni í hvorri flösku er lítið hylki sem innheldur GPS-staðsetningarbúnaðinn og gervihnattasendinn sem sendir frá sér staðsetningu til gervitungls.  Við hönnun flöskuskeytanna þurfti að hafa í huga að GPS-búnaðurinn ásamt loftneti gervihnattasendis myndi ávallt snúa upp til að tryggja að samband við gervitungl væri til staðar. Til þess að tryggja að innra hylkið snúi rétt er það látið fljóta í glycerol inni í flöskunni. Efnið glycerol var valið vegna þess að það er frostþolið þegar það er blandað í réttum hlutföllum við vatn, það er mjög seigt sem leiðir til aukins stöðugleika innra hylkisins þegar ytra hylkið er á hreyfingu og það er ekki skaðlegt umhverfinu. Til að tryggja höggþol flöskuskeytanna á hafi og þegar þau koma upp á land, var hálfum dragnótarkúlum bætt við á enda flöskuskeytanna og þær festar saman með plast snittteinum.

Mat á reki og prófanir flöskuskeyta
Rekhluti sjávarfallalíkans Verkíss var notaður til að meta hvar hentugasti sleppistaður flöskuskeytanna væri. Niðurstöður þess sýndu að hentugast væri að sleppa flöskuskeytinu á suður- eða austurlandi. Flöskuskeytin voru prófuð í öldulaug Álftaneslaugar til að skoða floteiginleika þess og í Nauthólsvík til að staðfesta að samband næðist við gervihnött þegar flöskuskeytin væru í vatni. 

Sjósetning flöskuskeyta
Flöskuskeytin voru sjósett um 20 mílur suðaustur út frá Reykjanesvita með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar, sunnudaginn 10. janúar sl. Líklegt er að flöskuskeytin verði hið minnsta nokkra mánuði á reki áður en þau ná landi.

Reklíkanið verður keyrt reglulega m.v. nýjustu veðurspár og staðsetningu skeyta til að spá fyrir um líklegt ferðalag þeirra. Niðurstöður líkansins verða síðan bornar saman við raunverulegt rek flöskuskeytanna og nákvæmni líkansins metin.


Að hönnun og prófunum komu:

Arnór Þórir Sigfússon,

Dýravistfræðingur Ph.D
Ágúst H. Bjarnason, Rafmagnsverkfræðingur
Ármann E. Lund, Véltæknifræðingur
Vigfús Arnar Jósepsson, Vélaverkfræðingur

Flöskuskeytin voru smíðuð í FÁST en fyrirtækið sérhæfir sig í hönnun, sölu og framleiðslu á plexígleri.

Umsjón með straumfræðiþáttum og ýmsum útreikningum:
Ólöf Rós Káradóttir,
Byggingarverkfræðingur M.S.C.E. / Hagnýt stærðfræði M.Sc.
Vigfús Arnar Jósepsson, Vélaverkfræðingur

Nánar um Ævar Vísindamann
Ævar vísindamaður er sjónvarpsþáttur fyrir börn og unglinga sem sýndur er á RÚV. Þátturinn hóf göngu sína 1. febrúar 2014 og er ætlað að beina vísindum að börnum og unglingum. Ævar vísindamaður hlaut Edduverðlaunin sem besta barna- og unglingaefnið 2015.

http://www.visindamadur.com
https://www.facebook.com/visindamadur/