22/3/2017

Fyrsta alsjálfvirka lestarkerfi í heiminum

  • Engey-vid-bryggju-a-Akranesi

Síðastliðið ár hefur stjórnkerfishópur orkusviðs tekið þátt í byltingarkenndu verkefni með Skaganum3X á Akranesi. 

Verkefnið felst í hönnun stjórnbúnaðar, forritun og gangsetningu á vinnsludekki og lestarkerfi í ferskfisktogarann Engey sem nýlega er kominn til landsins.  Lestarkerfið verður fyrsta alsjálfvirka lestarkerfi í heiminum og mun mannshöndin ekki koma nálægt sjálfri lestinni.  Fiskikörum verður staflað í fimm hæðir og 9 raðir.  Fiskurinn er flokkaður eftir tegundum í körin og fer sú flokkun fram með myndgreiningu.

Fyrir utan forritun á lestarkerfinu og hluta vinnsludekks sjá starfsmenn Verkís um allar stýrirásateikningar fyrir stjórnbúnaðinn á vinnsludekki og í lest, annarsvegar fyrir Skagann3X á Akranesi og hins vegar Skagann3X á Ísafirði sem sér um búnað á vinnsludekki. Verkís sér einnig um forritun á skjákerfi fyrir öll þessi kerfi. Við skjákerfið verður tengdur gagnagrunnur sem heldur utan um afla-samsetningu og nákvæma stöðu á kerfinu.

Engey á að vera tilbúin til veiða í apríl og áætlað er að Skaginn3X afhendi sambærilegan búnað í tvö önnur skip á þessu ári.

Verkefnisstjóri í Skagaverkefnunum er Jón Pálmason.

Lestarkerfid-i-EngeyMynd: Lestarkerfið í Engey