30/8/2017

Gerði lifandi kort af ferðalagi flöskuskeytanna tveggja

Ragnar Heiðar Þrastarson, fagstjóri landfræðilegra upplýsingakerfa á Veðurstofu Íslands, er einn þeirra sem fylgdist grannt með ferðalagi flöskuskeytanna tveggja sem Ævar Vísindamaður og Verkís sendu af stað í ferðalag á síðasta ári. Annað skilaði sér á land í Skotlandi eftir rétt tæplega ár í sjónum en hitt í Færeyjum eftir eitt ár og fimm mánuði. Ragnar Heiðar ákvað að eigin frumkvæði að gera svokallað lifandi kort sem sýnir ferðalag skeytanna á skemmtilegan hátt.

„Flöskuskeyti Ævars Vísindamanns og Verkís er einstakt verkefni þar sem fylgst var með tveimur flöskuskeytum ferðast um Norður Atlantshafið yfir talsvert langt tímabil. Í raunvísindum fylgjumst við með mörgum ferlum í náttúrunni sem gerast hægt samanborið við hið daglega amstur einstaklingsins,“ segir Ragnar Heiðar í samtali við Verkís.

Hann segir að starfsfólk Veðurstofunnar vakti marga slíka ferla með því að safna upplýsingum með reglulegu millibili í tíma. Til þess að ná betri yfirsýn yfir slíka ferla getur verið áhugavert að „spila“ slíkar mælingar hratt, til dæmis á korti, til að átta sig á hinu stærra samhengi og mynstrum sem eru ekki greinileg nema gögnin séu bókstaflega spiluð í tíma.

„Ég eins og margir aðrir fylgdist grannt með ferðalagi skeytanna, en sá á sama tíma að það væri kjörið að skoða gögnin að ferðalaginu loknu og útbúa einhverskonar lifandi kort sem spilar gögnin. Þessari kortagerð má í raun skipta upp í tvö skref. Í fyrsta skrefinu var skrifaður kóði sem les gögnin á opinberri síðu verkefnisins. Kóðinn grípur punkta beggja skeytanna og vistar staðsetningu í lengd og breidd, dagsetningu og tíma,“ segir Ragnar Heiðar.

Kóðinn skilar svo töflu sem hefur samtals að geyma um 2500 færslur þar sem í hver lína inniheldur nafn skeytisins, staðsetningu og tíma. Í skrefi tvö er þessi tafla svo send inn í kortaumhverfi á netinu sem rekið er af fyrirtækinu Carto. Þar eru færslurnar flokkaðar í skeyti 1 og 2 og teiknaðar upp ferill fyrir hvort skeyti fyrir sig.

„Ofan á ferlana er svo hver staðsetning látin blikka eða ljóma örsnöggt í tímaröð og fram næst lifandi ferðalag skeytanna sem aðeins tekur um 30 sekúndur á kortinu sjálfu. Þar má greina ýmislegt áhugavert eins og hvernig stefna skeytanna breytist samhliða og þau taka sömu lykkjur þrátt fyrir að fjarlægðin á milli þeirra sé orðin talsverð,“ segir Ragnar Heiðar að lokum. 

Hér má sjá kortið sem Ragnar Heiðar gerði

Ragnar-Heidar-Thrastarson--brun-24Ragnar Heiðar Þrastarson er fagstjóri landfræðilegra upplýsingakerfa á Veðurstofu Íslands. Í því felst utanumhald og ábyrgð á landfræðilegum gagnasöfnum stofnunarinnar, þróun á lausnum sem tengjast landfræðilegri staðsetningu auk almennrar kortagerðar.