15/12/2016

Greining á anda- og gæsavængjum úr veiði 2015

  • Heiðagæs

Út er komin skýrsla um greiningu á anda- og gæsavængjum úr veiði frá árinu 2015.  

Þessi skýrsla er hluti af langtímavöktun á ungahlutfalli í veiðistofnum anda og gæsa hér á landi og hefur Arnór Þ. Sigfússon stýrt þeirri vöktun frá árinu 1993. Verkefnið hlaut styrk úr Veiðikortasjóði árið 2015 en það er sjöunda árið sem sjóðurinn veitir verkefninu stuðning.

Frá árinu 1993 hefur Arnór safnað vængjum af öndum og gæsum frá veiðimönnum víðsvegar af landinu. Vængirnir hafa verið flokkaðir eftir tegundum og aldurshópum, þ.e. annars vegar ungfuglar á fyrsta ári og hins vegar eldri fuglar. Markmið þessara rannsókna er að vakta varpárangur stofnanna en hlutfall unga í veiði gefur vísbendingu um það hvernig varp tegundanna hefur gengið. Í skýrslunni er gerð grein fyrir niðurstöðum frá árinu 2015.

Alls voru aldursgreindar 6.943 gæsir sem söfnuðust frá veiðimönnum árið 2015. Hlutfall unga í veiðinni var um meðallag hjá grágæs og það lægsta síðan 2011. Hlutfall unga í veiðinni hjá heiðagæs var svipað og 2013 og 2014 og undir meðallagi þriðja árið í röð.  

Greindir voru vængir af 136 stokköndum. Hlutfall ungra stokkanda var um 46% sem er nokkuð lægra en 1993-2000, þegar það var 64% (95% öryggismörk 61-67%). Það bendir til að árið 2015 hafi verið undir meðallagi hjá stokköndinni. Sýni af öðrum tegundum anda var svo lítið að það reyndist ekki vera marktækt.

Skýrsluna má nálgast hér .