28/05/2020

Hanna göng sem tengja Nuuk við nýtt úthverfi

Vegtenging við úthverfi Nuuk
Vegtenging við úthverfi Nuuk

Til stendur að reisa nýtt úthverfi á Siorarsiorfik, ósnortnu svæði suðaustur af Nuuk á Grænlandi, til að mæta fólksfjölgun í höfuðborginni. Verkís vinnur þessa dagana ásamt samstarfsfólki sínu hjá S&M Verkís í Nuuk að hönnun ganga sem munu tengja hverfin saman. Verkís mun einnig vinna útboðsgögn.

Íbúum Nuuk fjölgar um 200 til 300 á ári hverju. Mörg hús í borginni eru illa farin og henta illa til búsetu. Á næstu árum er áætlað að fjölga heimilum í Nuuk um 800 og 3.400 í nýja hverfinu Siorarsiorfik. Nýr skóli verður byggður í Nuuk sem leysir tvo aðra af hólmi og einn nýr skóli verður reistur í nýja út hverfinu. Húsnæðið verður hannað með það í huga að þau standi vel af sér veðrabrigði norðurskautssvæðisins.

Á síðasta ári veittu sérfræðingar Verkís jarðfræðilega ráðgjöf við grunnrannsóknir vegna áætlaðrar jarðgangagerðar fyrir veg- og jarðgöng til uppbyggingar á nýju íbúahverfi við Nuuk. Verkefnið er unnið fyrir Nuuk City Development A/S. Nú er komið að hönnun vegtengingarinnar.

Charlotte Ludvigsen, borgarstjóri í Sermersooq á Grænlandi, sagði í samtali við vefmiðil sveitarfélagsins að vegtengingin milli hverfanna tveggja sé risastórt skref í rétta átt. Nuuk skorti land og göng að Siorarsiorfik þýði að fleiri geti fengið sitt eigið íbúðarhúsnæði og stjórnsýslan einnig.

Vegtengingin á milli hverfanna verður um 1,5 km en þar af eru eins kílómeters löng göng. Göngin verða tvíbreið og hvor akrein 3,5 m á breidd. Þá verður einnig sameiginlegur stígur fyrir gangandi vegfarendur og hjólreiðafólk. Stígurinn verður vel aðskilinn frá veginum. Vonast er til þess að göngin verði komin í notkun eftir þrjú ár.

Hér má sjá myndband af vegtengingunni: 

https://vimeo.com/420350211

Vegtenging við úthverfi Nuuk
Vegtenging við úthverfi Nuuk