11/4/2017

Hjólavegur við Sæbraut

  • Hjólavegur Sæbraut

Verkís sá um að hanna og gera útboðsgögn vegna framlengingar á hjólavegi við Sæbrautina á milli Kringlumýrarbrautar og Laugarnestanga. Með þessari framkvæmd eru Reykjavíkurborg og Vegagerðin búin að gera samfelldan hjólaveg á milli Hörpunnar og Laugarnestanga.

Þessi partur af hjólaveginum er um 600 m langur og 2,5 m breiður. Hann liggur að mestu með núverandi göngustíg. Sérstaklega er hugað að því að það verði þægilegt að ferðast á hjólaveginum og því hefur hann færri litla boga og þá frekar stærri boga. Reynt var að hafa gott bil á milli göngustígsins og hjólavegarins til að koma í veg fyrir árekstra á milli hjólandi og gangandi. Einnig var hugað að því við hönnun hjólavegarins að hann væri góður kostur og jafnvel fremri bílveginum. Taka varð tillit til þess að gangandi þurftu að þvera hjólaveginn tvisvar og að við enda vegarins, við Laugarnestangann, blandist umferð hjólandi og gangandi vegfarenda saman.

Þar sem hjólavegurinn og göngustígurinn liggja á bak við dælustöðina verða þeir upplýstir. Reykjavíkurborg óskaði einnig eftir því að Verkís gerði útskot, með bekkjum sem snúa að sjónum, svo fólk gæti sest niður og horft á sólarlagið. Gert var ráð fyrir því í upphafi að veghönnuðir ynnu þessa vinnu en Verkís lagði það til að fá landslagsarkitekt hjá fyrirtækinu í verkið og var borgin mjög ánægð með útkomuna. Ein af hugmyndum Verkís var að allar jurtir á svæðinu myndu gefa af sér æt ber, þannig verður hægt að stoppa í þessari vin og gæða sér á berjum ef árstíminn er réttur.