Hreinsistöð Veitna á Kjalarnesi tekin í notkun
Ný hreinsistöð Veitna á Kjalarnesi var formlega tekin í notkun í síðustu viku. Vinna við verkið hófst árið 2006 en hlé var gert á því árið 2010. Frá því að verkinu var haldið áfram í byrjun árs 2015 hefur hönnun og eftirlit verið í höndum Verkís.
Hönnun hreinsistöðvarinnar hófst 2006 og var smíði hennar boðin út í áföngum 2007 og 2008. Á árunum 2008-2010 voru mannvirkin byggð, dælubrunnur settur niður og megnið af landlagnavinnunni klárað.
Hrunið og slæm fjárlagsleg staða Orkuveitu Reykjavíkur/Veitna á þessum tíma varð svo til þess að framkvæmdunum var frestað árið 2010. Þær hófust svo aftur, meðal annars með lagningu sjólagnar, árið 2015 og í framhaldi uppsetningu lagna og hreinsibúnaðar í stöðinni.
Með stöðinni er allt þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu tengt við hreinsistöðvar. Hreinsistöðin hreinsar öll gróf efni úr skólpinu auk þess að sía frá sand og fitu. Skólpinu er því næst dælt um kílómetra út í sjó.
Verkís hefur frá upphafi verið aðalráðgjafi Orkuveitu Reykjavíkur/Veitna vegna framkvæmdanna.
Verkís óskar Veitum og notendum til hamingju með þennan langþráða áfanga.
Ljósmynd/Veitur