15/11/2017

Húsavíkurhöfðagöng tekin í notkun

Verkís hafði umsjón og eftirlit með verkinu fyrir Vegagerðina.

  • Husavikurhofdagong

Búið er að taka Húsavíkurhöfðagöng í notkun en þau tengja saman iðnaðarsvæðið á Bakka við Húsavíkurhöfn. 

Framkvæmdin náði yfir gröft Húsavíkurhöfðaganga, smíði vegskála við gangaenda, klæðningu ganga, jarðvatnslagnir og rafbúnað ásamt vegagerð í göngum og vegagerð frá höfn að göngum og frá göngum að iðnaðarsvæði á Bakka ásamt brimgöng og lögn vatnsveitu- og fráveitulagnar í göngin.

Lengd ganga í bergi er 943 m. Syðri vegskálinn er 4 m og nyrðri vegskáli 45 m eða alls 49 m.
Heildarlengd ganga með vegskálum er 992 m. Gólf í göngum er í sex metra hæð við suðurenda og fer mest í 21 m hæð yfir sjávarmáli við nyrðri enda ganga og er lengdarhalli 1,6%. 

Þversnið er sérstaklega hannað fyrir þessi göng, breidd þess er um 10,8 m í veghæð og þverskurðarflatarmál 76 m². Inni í göngunum er steypt tæknirými í miðjum göngum þar sem meðal annars verður spennistöð. Göngin voru malbikuð með steyptum upphækkuðum öxlum.

Raf- og öryggisbúnaður er takmarkaðri en í öðrum göngum og er mest af búnaðinum í tæknirýminu þar sem göngin eru ekki fyrir almenna umferð. 

Nýr vegur var byggður beggja vegna ganganna. Nýir vegir eru um það bil 306 m að sunnanverðu (hafnarmegin) og 1.387 m að norðanverðu, auk tengingar að verksmiðju PCC á Bakka 384 m, samtals um 2,1 km. Vegurinn er tólf metra breiður með sjö metra akbraut. Efra burðarlag vegarins var gert úr sementsbundnu efni.

Hluti brimvarnar á Bökugarði var endurgerður og færður út og framlengdur til norðurs meðfram vegi að gangamunna, lengd garðsins er um 400 m. Einnig var gerð uppfylling í innri höfninni á Húsavík, innan við Norðurgarð. 

Fyrri fréttir Verkís um verkefnið:
Bakkavegur Húsavík, Bökugarður - Bakki
Slegið í gegn í Húsavíkurhöfðagöng
Húsavíkurhöfðagöng