29/5/2017

Jarðvegssýnataka ofan Iðavalla í Reykjanesbæ

  • Rannsókn

Þann 19. maí sl. stöðvaði Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja fram­kvæmd­ir, á veg­um Íslenskra aðal­verk­taka, við gatna­gerð ofan Iðavalla í Reykja­nes­bæ þegar grafið var niður á gamlan sorphaug að öllum líkindum á vegum varnaliðsins.

Verkís hefur verið beðið um að taka að sér jarðvegssýnatöku á því svæði sem um ræðir, meta mengun og ástand svæðisins sem mun vera liður í ákvarðanatöku um hvernig skuli ganga frá því. Mældir voru þungmálmar með handröntgentæki (portable XRF) til að meta útbreiðslu mengunarinnar en einnig voru sýni tekin til PCB greininga en PCB efni teljast til þrávirkra lífrænna efna.  Niðurstaðna er að vænta á næstu dögum. 

Heil­brigðis­eft­ir­litið tók ákvörðun um stöðvun þegar verktakar grófu niður á tjöru og óttuðust að þrávirk lífræn efni væri að finna í jarðveginum sem huldi tjöruna.  Þrávirk lífræn efni eru gjarnan olíuafurðir og klórberandi efni. Þau eru nefnd þrávirk þar sem þau brotna afar hægt niður í umhverfinu. Einnig safnast þau upp í fituvefjum lífvera og magnast eftir því sem þau færast ofar í lífkeðjuna.  Þrávirk lífræn efni geta verið mjög skaðsöm og geta t.d. haft neikvæð áhrif á frjósemi spendýra svo eitthvað sé nefnt.

Mikið af járn­arusli var einnig grafið upp á svæðinu en járnarusli getur í sumum tilfellum fylgt hátt magn þungmálma.  Ef styrkur þungmálma reynist of hár tekur að gæta eituráhrifa því þeir geta haft áhrif á efnaskipti í frumum sem og upptöku næringarefna. Þungmálmar eru taldir sérstaklega hættulegir þar sem þeir safnast upp í vefjum lífvera styrkur þeirra eykst með tíma og líkur á neikvæðum áhrifum aukast því með aldri.