24/8/2017

Landsnet vígir tengivirki í Vestmannaeyjum

  • Landsnet vígir tengivirki í Vestmannaeyjum

Í gær vígði Landsnet nýtt tengivirki í Vestmannaeyjum. Vestmannaeyjastrengur 3, sem tekinn var í notkun í október árið 2013, var gerður fyrir 66 kV spennu en var fyrstu árin rekinn á 33 kV spennu og tengdur á sama hátt og eldri 33 kV sæstrengur sem nú hefur verið aflagður.

Með nýja tengivirkinu tvöfaldast flutningsgeta raforku til Vestmannaeyja, þar sem hægt er að hækka spennuna upp í 66 kV. Þar af leiðandi eykst afhendingaröryggi og framboð raforku auk þess að atvinnulíf á staðnum styrkist.

Verkís sá um verkhönnun og útboðshönnun verksins, aðstoð á útboðstíma, hönnunareftirlit, aðstoð á verktíma, ljósbogaútreikning og fleiri verkþætti. Verkís átti einnig þátt í lagningu Vestmannaeyjastrengs 3 á sínum tíma og gerði þá meðal annars hagkvæmnisathugun fyrir verkið, útboðsgögn fyrir lagningu strengsins, verkefnisáætlun, mat á umhverfisáhrifum og sá einnig um hönnun rafbúnaðar fyrir bráðabirgðatengingu strengsins. Við undirbúning lagningar sæstrengsins nýtti Verkís reynslu frá lagningu vatnslagnar til Vestmannaeyja árið 2008.

Samhliða byggingu nýja tengivirkisins í Vestmannaeyjum þurfti að breyta tengivirkinu í Rimakoti, sem tengir Vestmannaeyjar við land og styrkja Rimakotslínu 1 frá Hvolsvelli að tengivirkinu.

Undirbúningsvinna vegna verkefnisins um spennuhækkun strengsins hófst árið 2015 en þá var loftlínan við Hvolsvöll styrkt. Nýtt deiliskipulag vegna staðsetningar nýja tengivirkisins á hafnarsvæðinu í Vestmannaeyjum var samþykkt árið 2015 og byggingarleyfi undir lok ársins. Skipt var um strengenda við tengivirkið í Rimakoti árið 2016, aflrofum fyrir 66 kV spennu fjölgað og stjórn- og varnarbúnaður virkisins uppfærður. Framkvæmdir í Vestmannaeyjum hófust í ársbyrjun 2016 að undangengnum útboðum. Tengivirkið er sameign Landsnets og HS Veitna.

Í kringum 1980 hófust framkvæmdir í Vestmannaeyjum við uppbyggingu á hitaveitukerfi sem veitir heitu vatni til allra húsa á eyjunni og átti Verkís þátt í verkefninu, líkt og lesa má um hér . Sú viðbót sem nú er fyrirhuguð við hitaveitukerfið samanstendur af varmadælu þar sem nýting varna úr sjó er meginaflgjafi, ásamt því að frumorkunotkun er rafmagn frá vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum á meginlandinu. 

Verkís hefur gert hagkvæmnisathugun fyrir uppsetningu á öflugari varmadælu. Var niðurstaðan sú að hagkvæmasta afl varmadælu væri um 9 MW þar sem um tveir þriðju hlutar orkunnar kæmu úr sjó og um þriðjungur væri rafmagn. Hér má lesa meira um verkefnið.

Frétt Landsnets um vígsluna