27/6/2017

Lið Verkís söfnuðu 300 þúsund krónum fyrir Landsbjörg

  • Wow Verkís 2017

Þá er WOW Cyclothon lokið í ár og þar með þátttöku Verkís í keppninni í þriðja sinn. Við erum mjög stolt af liðunum okkar, Team Verkís og Verkísliðinu, sem skiluðu sér heil á húfi í mark og ánægð með árangurinn.

Team Verkís bætti tímann sinn frá því á síðasta ári um nítján mínútur og kom í mark á fjörutíu og einni klukkustund, þrjátíu og einni mínútu og fjörutíu og átta sekúndum. Þessi tími skilaði liðinu fimmta sæti í blönduðum liðum í B flokki og nítjánda sæti þegar litið er til allra liðanna í B flokki. 

Verkísliðið stóð sig einnig gríðarlega vel en þurfti því miður að hætta keppni, líkt og margir aðrir þátttakendur, vegna óveðurs sem var í aðsigi. Liðið lét þó ekki deigan síga og tók virkan þátt í að hvetja sitt fólk í Team Verkís áfram. Liðin hjóluðu síðan saman yfir endamarkið við mikil fagnaðarlæti viðstaddra, líkt og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni. Verkísliðið endaði í 94. sæti af 111 liðum í B flokki en við þá röðun er tekið tillit til þess hversu langt það var komið þegar það var látið hætta keppni.  

Það er mikill hugur í liðunum sem hlakka til að gera enn betur á næsta ári. Lítill svefn og mikið álag á skömmum tíma er fljótt að gleymast og hvetja liðin aðra starfsmenn Verkís til að stefna að þátttöku í WOW Cyclothon 2018. Takk kærlega fyrir allan stuðninginn og áheitin í ár.