17/2/2016

Möguleiki á endurheimt votlendis í Úlfarsárdal

  • Umhverfi

Í greinargerð sem Verkís vann að beiðni Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og birt var í febrúar 2016, er fjallað um möguleika á endurheimt votlendis á um 87 hektara svæði í Úlfarsárdal. 

Með því að stífla eða moka ofan í framræsluskurði má endurheimta votlendi sem áður var raskað og í leiðinni byggja upp svæðið sem friðland og útivistarsvæði með fjölbreyttum möguleikum til umhverfisfræðslu og útivistar.

Svæðinu var raskað með framræslu og ræktun túna um og eftir miðja síðustu öld og er í dag að mestu notað sem beitarland fyrir hross.  Við það að landið blotni aftur upp á nýtt við lokun skurða verða margvíslegar breytingar.  Votlendisgróður tekur við af þurrlendisgróðri og samsetning fuglafánunnar breytist, en fuglalíf í Úlfarsárdal er nokkuð fjölbreytt.

Kolefnisbúskapur svæðisins breytist í kjölfar endurheimtar. Þegar votlendi er ræst fram og þurrkað líkt og gert var í Úlfarsárdal, fer það að losa kolefni á formi gróðurhúsalofttegunda en við endurheimt snýst þetta ferli við og binding kolefnis hefst að nýju. Mikill  ávinningur getur því verið af endurheimt votlendis og á umræddu 87 hektara svæði í Úlfarsárdal er gróft áætlað að endurheimta megi votlendi á um 75% svæðisins.  Með því væri unnt að binda um 400 tonn af kolefni á ári.  

Skýrsluna um Endurheimt votlendis í norðanverðum Úlfarsárdal í Reykjavík má finna hér.