3/8/2017

Nota flöskuskeyti frá Verkís til að kortleggja ferðir svartfugla

  • nýsköpun

Á næstunni verður níu flöskuskeytum sleppt í hafið við Grænland. Um er að ræða verkefni danskra vísindamanna sem vilja reyna að kortleggja ferðir svartfugla í hafinu. 

Vísindamennirnir pöntuðu skeytin frá Verkís eftir að hafa heyrt af samstarfsverkefni fyrirtækisins við vísindamanninn Ævar Benediktsson og eru skeytin níu sambærileg þeim sem notuð voru í verkefninu.

Þann 10. janúar 2016 setti Verkís á flot tvö flöskuskeyti í samvinnu við Ævar. Flöskuskeytin voru með gervihnatta-sendi sem staðsetti skeytin með GPS-móttakara og sendi sex staðsetningar á dag.

Þessa dagana vinnur Verkís, í samstarfi við vísindamenn í Kanada, Danmörku og Bretlandi, einnig að styrkumsókn til National Geographic en hópurinn vill kortleggja ferðir geirfuglsins.

Arnór Þórir Sigfússon, dýravistfræðingur hjá Verkís, segir að ýmislegt hafi komið í ljós í samstarfsverkefni Ævars og Verkís, meðal annars að flöskuskeytin kortlögðu nokkuð vel vetrarstöðvar svartfugla. 

Þegar fuglinn lætur sig reka undan veðri, vindum og straumum hagar hann sér á vissan hátt eins og flöskuskeyti og þannig vonast dönsku vísindamennirnir til þess að læra meira um ferðir hans. Einnig kom í ljós að flöskuskeytin tvö kortlögðu líka nokkuð vel ferðir geirfuglanna en þau sigldu framhjá öllum helstu varpstöðvum fuglsins.

Umfjöllun Morgunútvarpsins á Rás 2 um málið og hefst hún þegar ein klukkustund og rúmlega 44 mínútur eru liðnar af þættinum.

Umfjöllun mbl.is um málið