29/3/2010

Tjónamat vegna jarðskjálfta á Suðurlandi

Enn unnið að tjónamati vegna jarðskjálfta í maí 2008.

 

Þann 29. maí 2008 varð stór jarðskjálfti á Suðurlandi, en við það skemmdust ýmis mannvirki á svæðinu.  Vægisstærð skjálftans var um 6,3 sem er öflugur skjálfti á okkar mælikvarða.  Skjálftarnir sem nýlega hafa riðið yfir á Haíti og í Chile voru þó talsvert öflugri,  en þeir voru af vægisstærðinni 7,0 á Haíti og 8,8 í Chile.

Skemmdir hér á landi urðu víðast smávægilegar, víða all nokkrar og í nokkrum tilfellum miklar. Hvergi voru þó skemmdir á borð við þær sem urðu á Haíti og Chile. Slys á fólki urðu sem betur fer mjög lítil.

Verkís hefur sinnt tjónamati á Selfossi, Eyrabakka, Stokkseyri (Árborg) og nærsveitum fyrir Viðlagatryggingu Íslands frá því jarðskjálftinn reið yfir.  Almenna verkfræðistofan hefur sinnt tjónamati í Hveragerði og Ölfusi.  Jafnframt hefur Verkís séð um tjónamat á veitulögnum, s.s. vatnsveitu, hitaveitu og frárennsliskerfum á Suðurlandi. 

Áður hafði Verkís sinnt tjónamati fyrir Viðlagatryggingu t.d. í Rangárvallasýslu eftir jarðskjálftana 2000, og vegna ýmissa annarra tjónsatburða.

Á haustmánuðum 2009 lauk að mestu tjónamati á Suðurlandi.  Matsmenn Verkís höfðu þá heimsótt ríflega 2.000 tjónastaði.  Útibú Verkís á Selfossi annaðist verkefnið, en að því komu starfsmenn Verkís frá Selfossi, Egilsstöðum, Akureyri, Ísafirði, Akranesi, Reykjanesi og Reykjavík.     

Tjónamatinu verður seint að fullu lokið, þar sem frekari skemmdir sem rekja má til skjálftanna geta komið í ljós á næstu árum.  Tjónþolar geta tilkynnt ætluð ný tjón í 4 ár eftir jarðskjálftann, og ætluð viðbótartjón við áður metin tjón í 10 ár. 

Enn er unnið að tjónamati á frárennsliskerfum í Árborg og Hveragerði.  Síðustu mánuði hafa lagnir verið myndaðar og í kjölfarið myndskeiðin skoðuð til að meta skemmdir sem rekja mátti til jarðskjálftanna.  Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki í vor.

Viðlagatrygging Íslands setti upp þjónustuskrifstofu á Selfossi strax í kjölfar jarðskjálftans, enda nauðsynlegt að tjónþolar hefðu beinan aðgang að starfsmönnum Viðlagatryggingar.  Þar sem verkefninu er nú nánast lokið, var ekki lengur þörf fyrir skrifstofu á Selfossi, og var henni því lokað um síðustu áramót. 

Á sama tíma flutti Viðlagatrygging höfuðstöðvar sínar í Reykjavík af Laugavegi yfir í Borgartún 6.