7/6/2017

Öryggi hjólandi vegfarenda á þjóðvegum landsins

Á dögunum vann Verkís að rannsóknarverkefni, eftir að hafa hlotið styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar, um öryggi hjólandi vegfarenda á þjóðvegum landsins.

Í tengslum við rannsóknina var gerð könnun á meðal hjólreiðamanna og aðilar spurðir um öryggi hjólandi vegfarenda á þjóðvegum landsins og náði könnunin til almennra hjólreiða sem og til hjólreiðakeppna. Alls svöruðu 465 aðilar könnuninni en markmið rannsóknarinnar var að skoða  fyrirkomulag umferðaröryggis í stærri hjólreiðakeppnum, meta við hvaða aðstæður hjólreiðafólk sem hjólar á þjóðvegum landsins vilji hjóla, leggja mat á hvaða þættir geta haft áhrif á óhöpp/slys á meðal hjólreiðafólks og hvað megi betur gera til að tryggja öryggi keppenda í hjólreiðakeppnum.

Haetta_hjolreidakeppniFlestir voru sammála um að vörubílar og rútur væru þeir þættir sem sköpuðu mikla eða mjög mikla hættu á meðan á hjólreiðakeppni stendur (þ.e. um 60% svarenda). Einnig töldu svarendur að yfirborð vega og lausamöl skapi mjög mikla hættu á meðan á keppni stendur. Um 6% svarenda höfðu lent í slysi/óhappi í hjólreiðakeppni og um 18% svarenda voru nálægt því að lenda í slysi/óhappi. Flest slys/óhöpp eru vegna samstuðs við annað hjólreiðafólk en flestir mátu það sem svo að ökutæki sköpuðu mesta hættu. Flestir voru sammála því að slíkar keppnir þyrfti að kynna frekar og þá sérstaklega fyrir atvinnubílstjórum. 

Þegar horft er til hjólreiða í dreifbýli almennt, þá voru flestir á því vöruflutningabifreiðar og rútur sköpuðu mesta hættu en 88% svarenda sögðu að slíkar bifreiðar sköpuðu mjög mikla eða mikla hættu. Lausamöl á götum og lélegt yfirborð vega er einnig atriði sem margir telja að valdi mjög mikilli eða mikilli hættu og margir hafa upplifað það sem vandamál. Helst það í hendur við að flestir svarendur telja að hreinar götur séu mikilvægur þáttur hvað varðar öryggi við hjólreiðar í dreifbýli. Um 26% svarenda höfðu lent oftar en einu sinni í slysi við hjólreiðar í dreifbýli. Af þeim slysum, höfðu einungis 13% þeirra verið tilkynnt til lögreglu og sýnir það hversu mikil vanskráning er á hjólreiðarslysum.

Skýrsluna í heild má finna á vefsíðu vegagerðarinnar.