20/9/2017

Plata Ásgeirs Trausta í flöskuskeyti Frá Verkís

  • Flöskuskeytið Ásgeir Trausti

Þessa dagana vinnur Verkís að spennandi verkefni í samstarfi við tónlistarmanninn Ásgeir Trausta, vísindamanninn Ævar Þór Benediktsson og KrakkaRÚV. Verkefnið hefur fengið heitið Album in a Bottle

Starfsfólk Verkís eru að hanna og smíða flöskuskeyti sem rúmar vínylplötu með tónlist Ásgeirs og verður því kastað í sjóinn við Ísland sem hluti af fjársjóðsleit sem fer fram út um allan heim. Hér er hægt að fylgjast með ferð skeytisins. 

Í sumar var Ásgeir heilan sólarhring í hljóðveri þar sem hann tók upp tónlist beint á vínylplötu og sýndi RÚV beint frá upptökunum. Ákvað hann að nota nokkrar þeirra í fjársjóðsleit og gefa aðdáendum sínum þannig tækifæri til að eignast nokkrar af þeim. 

„Það vildi þannig til að Ævar var að horfa á þetta allt í beinni, eða hlusta á og hafði samband og þar byrjuðum við að þróa þessa hugmynd,“ sagði Ásgeir í samtali við Krakkafréttir þegar þeir Ævar heimsóttu Verkís á dögunum.

Fjölmargir fylgdust með ferðalagi flöskuskeytanna tveggja sem Ævar  og Verkís sendu af stað í ferðalag á síðasta ári. Annað skilaði sér á land í Skotlandi eftir rétt tæplega ár í sjónum en hitt í Færeyjum eftir eitt ár og fimm mánuði.

„Verkís var til í að koma aftur að hönnun skeytisins og það þarf náttúrulega að breyta því, það þarf að stækka það. Platan er stór,“ sagði Ævar í samtali við Krakkafréttir. 

„Það var mjög gaman að koma hérna í dag, sjá öll vísindin og allt fólkið sem er á bak við þetta, að búa þetta til. Þetta er heljarinnar mál. Ég er náttúrulega gríðarlega spenntur fyrir þessu, að þessi hugmynd hafi komið upp. Þetta er mjög svona skemmtileg þróun á þessu verkefni sem við vorum að gera með vínilplöturnar,“ sagði Ásgeir.

„Síðast var það Skotland og Færeyjar, hver veit, kannski fer það hring og kemur aftur heim. Kannski er það Grænland, kannski Ástralía. Við vitum það ekki,“ sagði Ævar.

Það eru þeir Arnór Þór Sigfússon, dýravistfræðingur, Ármann E. Lund, véltæknifræðingur og Vigfús Arnar Jósefsson, vélaverkfræðingur sem vinna að hönnun og smíði flöskuskeytisins hjá Verkís. 

Hér má sjá umfjöllun um málið í Krakkafréttum á KrakkaRÚV