24/8/2017

Sjálfvirka lestarkerfið í Engey reyndist vel í fyrstu veiðiferðinni

  • Sjálfvirka lestarkerfið í Engey

Allt gekk að óskum í fyrstu veiðiferð ísfiskstogarans Engeyjar RE sem kom til hafnar í gær eftir sína fyrstu veiðiferð. Reyndist skipið vonum framar. Í skipinu er fyrsta alsjálfvirka lestarkerfið í heiminum en Verkís vann að hönnun, forritun og gangsetningu kerfisins fyrir Skagann 3X.

Haldið var úr höfn í Reykjavík síðastliðinn fimmtudag og var skipið því tæplega fimm sólarhringa á veiðum. Auk skipstjóra og áhafnar voru fimm tæknimenn á vegum Skagans 3X með í för þar af einn frá Verkís.

Friðleifur Einarsson, skipstjóri Engeyjar, sagði í samtali við HB Granda að sjálfvirka lestarkerfið hafi virkað fullkomlega í fyrstu veiðiferðinni. ,,Heilt yfir gekk allt eins og í sögu. Það komu smávægilegir hnökrar upp en þeir voru lagfærðir jafnóðum. Sjálfvirka lestarkerfið, sem er algjör nýjung um borð í skipum, virkaði fullkomlega og aðgerðaraðstaðan á millidekkinu gæti ekki verið betri. Það mun hins vegar taka tíma að læra á allan tölvubúnaðinn í skipinu og fá allt til að virka 100% saman. Það lærist eins og annað,“ sagði Friðleifur.

Orkusvið Verkís vann verkefnið fyrir Skagann 3X. Verkefnið fólst í hönnun stjórnbúnaðar, forritun og gangsetningu á vinnsludekki og lestarkerfi í Engey. Fiskikörum verður staflað í fimm hæðir og níu raðir. Fiskurinn er flokkaður eftir tegundum í körin og fer sú flokkun fram með myndgreiningu.

Fyrir utan forritun á lestarkerfinu og hluta vinnsludekks sáu starfsmenn Verkís um allar stýrisásateikningar fyrir stjórnbúnaðinn á vinnsludekki og í lest, annars vegar fyrir Skagann 3X á Akranesi og hins vegar fyrir Skagann 3X á Ísafirði sem sér um búnað á vinnsludekki. Verkís hefur séð um forritun á skjákerfi fyrir öll þessi kerfi. Við skjákerfið verður tengdur gagnagrunnur sem heldur utan um samsetningu aflans og nákvæma stöðu á kerfinu. Áætlað er að Skaginn 3X afhendi sambærilegan búnað í tvö önnur skip á þessu ári.