17/8/2017

Starfsfólk Verkís gróðursetur til að minnka kolefnissporið

  • gróðursetning á trjám

Í sumar hefur starfsfólki Verkís verið úthlutað rúmlega 5.600 plöntum til gróðursetningar.  Þetta er liður í því að minnka kolefnisspor fyrirtækisins. Verkís hefur sett sér markmið í loftlagsmálum sem miða að því að starfsemi stofunnar verði kolefnisjöfnuð að fullu árið 2030. 

Til að ná því markmiði verður jafn og þétt dregið úr losun og kolefnisjafnað með skógrækt og endurheimt votlendis. Kolefnisspor er mælikvarði á gróðurhúsalofttegundir sem við losum beint eða óbeint í dagsins önn. Gróðurhúsalofttegundir hafa m.a. áhrif á loftlagsbreytingar.

Starfsfólk Verkís gat valið mismunandi trjátegundir til gróðursetningar. Þar má nefna sitkagreni, stafafuru, alaskavíði, birki, elri og ösp. Birkið var vinsælast en þar á eftir kom stafafuran. Hægt var að biðja um eina plöntu eða fleiri og hefur starfsfólkið verið duglegt að gróðursetja, til að mynda í húsagörðum og við sumarbústaði. 

Markmið Verkís í loftslagsmálum

  • Verkís hefur sett sér það markmið að árið 2030 verði hlutfall starfsmanna sem nota vistvænar samgöngur 60% og ætlar að vinna að því með hvatningu, styrkjum og endurbótum á aðstöðu. Árið 2015 notuðu 20% starfsmanna slíkar samgöngur.
  • Verkís hefur sett sér það markmið að öll faratæki fyrirtækisins sem notuð eru til að sinna erindum innanbæjar verði umhverfisvæn árið 2030. Smá saman verður núverandi farartækjum skipt úr fyrir önnur sem eru umhverfisvæn. Árið 2015 var eitt farartækja Verkís umhverfisvænt en síðan hefur rafmagnsbílum fjölgað um tvo.
  • Verkís hefur sett sér það markmið að hlutfall endurvinnslu verði 95% árið 2030 og ætlar að vinna að því með fræðslu og hvatningu. Árið 2015 var hlutfall endurvinnslu hjá fyrirtækinu 79%.
  • Verkís hefur sett sér það markmið að árið 2030 verði magn af sorpi á hvern starfsmann 58 kíló og verður dregið úr úrgangsmyndum með breyttum innkaupum. Árið 2015 var magn af sorpi á hvern starfsmann 93 kíló.
  • Verkís hefur sett sér það markmið að starfsmenn skilji ekki eftir sig neitt kolefnisspor árið 2030. Auk ráðstafana til að draga úr losun sem taldar eru upp að ofan ætlar fyrirtækið að kolefnisjafna með skógrækt og endurheimt votlendis. Árið 2015 var kolefnisspor hvers starfsmanns 1,1 tonn.