06/06/2018

Sviðsetja krapaflóð í tilraunasal

Krapaflóð
Krapaflóð

Nýlega hófust líkanatilraunir í tilraunasal Vegagerðarinnar í Vesturvör í Kópavogi vegna hönnunar varnarmannvirkja gegn krapaflóðum á Patreksfirði og í Bíldudal. Tilraunirnar eru unnar fyrir Ofanflóðasjóð og eru samvinnuverkefni Verkís, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands og siglingasviðs Vegagerðarinnar.

Síðustu ár hefur verið unnið að frumhönnun varna fyrir Vesturbyggð vegna krapaflóðum ofan byggðar, neðan Stekkagils á Patreksfirði og Gilsbakkagils á Patreksfirði og Gilsbakkagils á Bíldudal. Varnargarðarnir verða útfærðir með hliðsjón af niðurstöðum tilraunanna. Hermt er eftir krapaflóðum sem fallið gætu víða á Íslandi í kjölfar leysinga.

Verkís og Veðurstofa Íslands hafa stýrt verkefninu og stillt upp tilraunasetti í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Verkís hannaði krapaflóðaherminn og flóðrennuna að hollenskri fyrirmynd. Til ráðgjafar var Hollendingurinn Van der Meer sem tók herminn út í heimsókn til Íslands í lok apríl.

Fjallað var um málið í Morgunblaðinu í gær og rætt við Kristínu Mörthu Hákonardóttur, byggingarverkfræðing og straumfræðing hjá Verkís. Hún sagði  að tilgangurinn með þessum tilraunum sé að reyna að finna bestu varnarútfærslu gegn krapaflóðum. Tilraununum ljúki væntanlega í sumar og í kjölfarið verður lokið við frumathugunarskýrslu vegna varnargarða í Vesturbyggð og tillögurnar kynntar bæjarstjórn og íbúum.

„Virkni varnagarða gegn krapaflóðum er önnur en gegn þurrum snjóflóðum og svona varnir hafa ekki verið hannaðar áður. Eðlisfræðin er önnur þar sem krapaflóð eru vatnsmettuð og springa gjarnan fram, líkt og um stíflubrot sé að ræða, en við fáum vonandi svör við mörgum spurningum með þessum tilraunum,“ sagði Kristín Martha í samtali við Morgunblaðið.

Hún sagði einnig að ekki hafi verið gerð eftirlíking af fjöllum eða giljum, heldur sé renna notuð til að herma eftir flóðbylgju á skalanum 1 á móti 10. Með því að opna loku á rennunni komi skyndileg flóðbylgja, nokkurs konar flóðskafl, niður. Undanfarið hafi þau verið að stilla dýpt og hraða þannig að það passi við raunveruleg flóð sem gætu komið úr þessum giljum.

Kristín Martha rifjaði upp að mikil tilraunavinna hafi verið unnin í tengslum við snjóflóðavarnir í Neskaupsstað í kringum aldamót. Nú sé svipuð vinna í gangi vegna krapaflóðavarna. Á Patreksfirði var unnið við gerð snjóflóðavarna fyrir ofan byggðina og krapaflóðavarna á bökkum Litludalsár á árunum 2013 – 2016. Í ágúst 2016 var snjóflóðavarnargarður undan Búðargili á Bíldudal formlega afhentur og lauk þar með fyrsta áfanga ofanflóðavarna í bænum.

Krapaflóð
Krapaflóð