19/10/2017

Togbraut fyrir vörur – Tækniskjöl vegna CE-merkingar

  • CE merkingar

Verkís tók að sér að útbúa tækniskjöl vegna CE-merkingar á togbraut fyrir vörur sem uppsetningarverktakinn Köfunarþjónustan ehf. notar til að flytja vörur og búnað frá grunnplani upp á vinnusvæðið í fjallshlíðinni á Siglufirði. 

Verkefnið tengist verkefninu Snjóflóðavarnir á Siglufirði – uppsetning stoðvirkja í Nyrðri-Fífldölum ofan við Siglufjarðarbæ. 

Togbrautin er eins konar kláfferja sem samanstendur af tveimur til þremur möstrum, aðalmastri á grunnplani, endamastri uppi í fjalli og millimastri ef þörf krefur (háð landslagi og lengd togbrautar).

Burðarvír er strengdur á milli endamastranna og ber uppi kláfinn, sem hífibúnaður og vörurnar sem flytja skal, hanga í. Einnig eru til staðar vindur ásamt tildráttarvír, hífitaug, tilheyrandi rúllur, blakkir, krókar, ásamt stögum og ýmsum festibúnaði og jarðfestingum. Togbrautinni er stjórnað með þráðlausri fjarstýringu. Hún er hugsuð til notkunar við verkefni, þar sem erfitt er að koma við hefðbundnum flutningstækjum og er eingöngu ætluð til vöruflutninga, en ekki til að flytja fólk.

Togbrautin er flokkuð sem vélbúnaður sem þarf að CE merkja samkvæmt reglugerð um vélar og tæknilegan búnað (nr. 1005/2009) til að nota megi búnaðinn hér á landi. Helstu tækniskjöl sem voru útbúin eru: Áhættumat, teikningar, notkunarhandbók, samræmisyfirlýsing og burðarþolsútreikningar fyrir alla hluta búnaðarins sem ekki eru aðkeyptir og nú þegar CE merktir.

Aðaláskorunin í þessu verkefni fólst í að setja upp forsendur, öryggiskröfur og útfæra burðarþolsútreikninga fyrir burðar- og tildráttarvíra, þar sem ekki fundust EN staðlar né hentugar forskriftir sem eingöngu eiga við kláfferjur fyrir vöruflutninga. Fjöldi staðla og gögn fundust hins vegar fyrir kláfferjur fyrir fólksflutninga, en fyrir þær eru gerðar mun meiri og flóknari kröfur.

Álags- og burðarþolsreikningar fyrir möstrin reyndust einnig allflóknir, en allt var þetta leyst að lokum.