20/10/2017

Deiliskipulag fyrir Bryggjuhverfi vestur kynnt

  • Bryggjuhverfið

Verkís hefur ásamt Arkís og Landslagi skilað inn drögum að deiliskipulagi fyrir Bryggjuhverfi vestur og hefur umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar kynnt drögin. 

Verkís sá um gatnahönnun, umferðartækni, blágrænar ofanvatnslausnir sem og aðrar veitur, umhverfismat áætlana, hljóðvist og lýsingu í deiliskipulaginu.

Bryggjuhverfi vestur er að mestu á núverandi landfyllingu og afmarkast af núverandi Bryggjuhverfi til austurs, Ártúnshöfða til suðurs og sjó til norðurs og vesturs. Til norðurs snýr deiliskipulagið til sjávar, en gert er ráð fyrir að núverandi landfylling stækki út í sjó.

Bryggjuhverfi-vestur

Bryggjuhverfi vestur er hér sýnt með grænum lit fyrir miðju. Hægra megin er vestasti hluti núverandi Bryggjuhverfis og vinstra megin má sjá útlínur að nýjum áfanga Bryggjuhverfisins, sem mun rísa á landfyllingum þegar tímar líða. Myndin er tölvuteiknuð og birt með leyfi Arkís. 

Til vesturs er fyrirhuguð frekari landfylling í rammaskipulagi Elliðaárvogs og Ártúnshöfða. Landfyllingin verður 25 þúsund fermetrar og hefur verið samið við Björgun um að sjá um gerð hennar. Þegar því verki lýkur verður ný íbúðabyggð skipulögð á henni.

Bryggjuhverfi vestur er fyrsti deiliskipulagsáfanginn sem unninn er á grunn rammaskipulags Elliðaársvogs og Ártúnshöfða, sem byggist á áherslum aðalskipulags Reykjavíkur. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir að 90% allra nýrra íbúða, sem reistar verða á skipulagstímabilinu, rísi innan núverandi þéttbýlismarka. Allt að 850 íbúðir verða byggðar í Bryggjuhverfi vestur. 

Umfjöllun mbl.is um málið