27/3/2017

Umhverfismengun – Vöktun er nauðsynleg

  • Umhverfi

Verkís hefur komið að tveimur verkefnum sem tengjast umhverfismengun.

Það fyrsta tengist grunnvatnssýnatöku á Keflavíkurflugvelli, en mikil flugumferð með tilheyrandi notkun afísingarefna getur skilað skaðlegum efnum út í nærliggjandi umhverfi. Isavia hefur því falið Verkís að fylgjast með skaðlegum efnum í grunnvatni.

Hið síðara tengist fyrrum varnarsvæði Bandaríkjahers, á gömlu ratsjárstöðinni á Stokksnesi, en þar er að finna töluvert magn þungmálma og þrávirkra lífrænna efna í jarðvegi sem komið er til vegna fyrrum starfsemi varnarliðsins. Landhelgisgæsla Íslands hefur falið Verkís að meta umfang mengunarinnar sem og að koma með lausnir að hreinsun og frágangi jarðarinnar.

Umhverfismengun – jarðvegur – set - vatn
Land og vatn telst vera mengað þegar jarðvegur eða set inniheldur óeðlilega hátt hlutfall frumefna eða efnasambanda sem getur haft skaðleg áhrif á heilsu manna og dýra.
Skaðleg efni geta verið bæði ólífræn (þungmálmar) og lífræn (skordýraeitur, olíuafurðir og klórberandi efni). Þungmálmar eiga uppruna sinn að rekja til jarðskorpunnar. 

Þungmálmar
Ef styrkur þeirra verður of hár tekur að gæta eituráhrifa. Þungmálmar eru taldir sérstaklega hættulegir þar sem þeir safnast upp í lífkeðjunni því styrkur þeirra eykst með tíma ef borið er saman við uppsöfnun þeirra annars staðar í vistkerfinu.
Einnig safnast þungmálmar upp í lífverum því oft á tíðum er inntaka þeirra mun hraðari en losun. Of háan styrk þessara málma má rekja til iðnaðar en einnig til landbúnaðar og svifryks.
Skaðlegustu þungmálmarnir eru taldir vera As, Pb, Cd, Cu, Cr, Se og Hg.
Þungmálmar berast í menn og dýr t.d. þegar styrkur þeirra er of hár miðað við bindigetu jarðvegs eða sets og þá aukast líkur á mengun neysluvatns. 

Þrávirk lífræn efni
Skordýraeitur, olíuafurðir og klórberandi efni eru svokölluð lífræn mengunarefni. Lífræn mengunarefni hafa oft verið nefnd þrávirk enda talin einkar skaðsöm þar sem þau brotna afar hægt niður en safnast upp í fituvefjum lífvera og magnast eftir því sem þau færast ofar í lífkeðjuna. Erfitt er að brjóta niður þrávirk lífræn efni þar sem mörg þeirra eru hluti af löngum lífrænum keðjum eða stórum sameindum sem erfitt er að sundra.