27/3/2017

VERKÍS Á MEÐAL STYRKTARAÐILA AÐ ÞJÓÐARGJÖF TIL NORSKU ÞJÓÐARINNAR

Í tilefni af heimsókn forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, til Noregs í síðustu viku var norsku þjóðinni færð 500 eintök af nýrri, glæsilegri heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta á norsku.

Gjöfin er helguð áttræðisafmæli norsku konungshjónanna á þessu ári. Þjóðargjöfinni verður dreift til bókasafna í Noregi þannig að almenningi hvarvetna í landinu sé tryggður greiður aðgangur að þessum sagnasjóði, sem gjarnan er talinn merkasta framlag Norðurlandanna til heimsbókmenntanna.

Þjóðargjöfin var afhent með viðhöfn og hátíðardagskrá í Þjóðarbókhlöðu Norðmanna í Osló þann 22. mars sl. að viðstöddum norsku konungshjónunum, íslensku forsetahjónunum og fulltrúum ríkisstjórna landanna.

Fulltrúum þeirra fyrirtækja sem styrktu þjóðargjöfina voru viðstaddir hátíðardagskrána en Verkís er meðal styrktaraðila.  Sveinn Ingi Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís, var viðstaddur athöfnina.