19/9/2017

Verkís hlýtur samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 2017

  • Samgönguvika viðurkenning

Verkís hlýtur Samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2017 og ræður vistvænn ferðamáti starfsmanna og fordæmi fyrirtækisins í vistvænum rekstri þar mestu um val dómnefndar. 

Haukur Þór Haraldsson, viðskiptastjóri hjá Verkís, tók við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins í Ráðhúsi Reykjavíkur síðdegis í gær. Orkuveita Reykjavíkur hlaut einnig Samgönguviðurkenninguna í ár. 

Hér má sjá rökstuðning dómnefndar: 

  • Stór hluti starfsmanna Verkís notar vistvænan ferðamáta til að komast til og frá vinnu, hjólandi, gangandi eða í strætó, alls um 31% starfsmanna yfir árið (hærra hlutfall yfir sumarið).
  • Verkís er með stóra og flotta, yfirbyggða hjólageymslu sem hýsir allt að 70 hjól. Þar er einnig að finna aðstöðu og búnað til léttra viðgerða á reiðhjólum.
  • Þegar fyrirtækið flutti í nýjar höfuðstöðvar í Ofanleiti 2 þá var lóðinni breytt þannig að bílastæðum var fækkað til muna, m.a. var hluta bílastæða breytt í grasflöt og hluti tekinn undir hjólageymslu.
  • Við val á nýjum höfuðstöðvum var kannaður þéttleiki búsetu starfsmanna á höfuðborgarsvæðinu og staðsetning nýrra höfuðstöðva valin m.a. með tilliti til þess hvar þéttleikinn væri mestur. Einnig var gerð úttekt á aðgengi og aðkomu að byggingum sem valið stóð um, m.a. strætósamgöngur, hjóla- og göngustígar.
  • Hleðslustöðvar fyrir rafbíla starfsmanna eru á lóðinni, til viðbótar við staura fyrir rafbíla Verkís.
  • Starfsfólki stendur til boða samgöngustyrkur. Starfsmaður gerir samning við fyrirtækið og skuldbindur sig til að koma ekki oftar en einu sinni í viku á bíl að jafnaði. Samgöngustyrkurinn er 7500 kr. á mánuði

Árið 2015 undirritaði Verkís loftslagssáttmála Festu og Reykjavíkurborgar og hefur sett sér markmið í loftslagsmálum. Hafa markmiðin verið innleidd í umhverfisstjórnunarkerfi fyrirtækisins og er m.a. haldið utan um kolefnisbókhald sem hluta af grænu bókhaldi fyrirtækisins. 

Eitt af meginmarkmiðum í loftslagsmálum er að skipta yfir í vistvænni bíla, einkum rafmagnsbíla, og auka hlutfall starfsmanna sem ferðast með vistvænum hætti. Þá er ætlunin að draga úr kolefnislosun vegna starfssemi fyrirtækisins og binda kolefni fyrir alla þá losun sem ekki er hægt að koma í veg fyrir. Í þeim tilgangi bauðst starfsmönnum 5600 trjáplöntur til að planta í reit að eigin vali

Umfjöllun Reykjavíkurborgar
Umfjöllun mbl.is