12/9/2017

Verkís kynnir niðurstöður vegna hitaveitu í Poddebice í Póllandi

  • Poddebice ráðstefna

Óskar Pétur Einarsson, vélaverkfræðingur hjá Verkís, sótti fyrr í sumar ráðstefnuna Geothermal energy utilisation potential in Poland - Poddebice.

Á ráðstefnunni var fjallað um verkefnið „Möguleikar á nýtingu jarðvarma í Póllandi – Bærinn Poddebice“. Verkís hefur unnið tillögur vegna hugsanlegrar stækkunar veitunnar og sagði Óskar Pétur frá þessum tillögum í öðru af tveimur erindum sínum á ráðstefnunni.

Hitaveitan var tekin í notkun árið 2012 og hefur því verið starfandi í fimm ár. Í dag er hún 5,5 MW og þjónar hluta bæjarins en vonir standa til að hægt verði að stækka hana upp í 18 MW. Markmiðið er að allir íbúar bæjarins, tæplega átta þúsund, geti notað hitaveituna eftir stækkunina. Þá er einnig vonast til að hægt verði að nýta þá þekkingu og reynslu sem verður til við verkefnið til þess að fjölga stöðum í Póllandi sem nota jarðvarma til upphitunar húsa. DSC_0012

Óskar Pétur gerði lauslega kostnaðargreiningu á hitaveitumannvirkjum sem þarf að stækka svo stækkunin geti orðið að veruleika. Þá lagði hann einnig til að gasketill yrði notaður sem toppaflsstöð þar sem það myndi líklega vera ódýrari lausn en varmadæla. Í tillögum Verkís kom einnig fram að til langs tíma væri best að bora aðra vinnsluholu til viðbótar við þá einu holu sem notuð er í dag. Þannig yrði eldsneytis- og rafmagnskostnaður til húshitunar í framtíðinni nánast enginn.

Núverandi framleiðslugeta hitaveitunnar er 190 m³/klst. 100 Kw dælu var komið fyrir á 90 metra dýpi í borholunni og hingað til hefur hún verið rekin á 50% afköstum að hámarki. Möguleiki er á að reka hana á meiri afköstum, eða allt að 260 m³/klst.

Verkís vann verkefnið í samstarfi við ÍSOR fyrir Orkustofnun.