19/12/2017

Verkís leggur til að Hádegissteinn verði fjarlægður

Vegur tugi tonna og gæti hrunið fyrirvaralaust niður í byggð

  • Hádegissteinn

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að láta fjarlægja Hádegisstein í Bakkahyrnu ofan Hnífsdals, líkt og Verkís lagði til í haust. Ljóst þykir að steinninn, sem vegur tugi tonna, er á hreyfingu og gæti fyrirvaralaust hrunið niður í byggðina.

Í ágúst var farin vettvangsferð vegna frumathugunar sem Verkís sinnir í sunnanverðum Hnífsdal vegna ofanflóðavarna. Tveir starfsmenn Veðurstofu Íslands og tveir starfsmenn Verkís fóru í ferðina auk ofanflóðasérfræðings frá snjóflóðastofnuninni SLF í Davos í Sviss. Metnir voru möguleikar á því að koma upp stoðvirkjum í fjallinu, meðal annars á því svæði sem Hádegissteinninn er.

Í vettvangsferðinni sást greinilega að steininn er á hreyfingu og skófir á steininum ofanverðum gáfu til kynna að steinninn hefði nýlega skriðið til eða snúist um allmarga sentímetra þannig að sjá mátti skóflausa rönd sem nýlega hafði dregist upp á yfirborðið, líkt og sjá má á myndinni hér fyrir neðan. 

Hadegissteinn_3

Steinninn er svo stór og þungur að hann getur valdið talsverðu tjóni á byggingum og slysum á fólki fari svo að hann renni af stað. Því er tilefni til aðgerða til þess að draga út hættu af völdum hugsanlegs hruns steinsins niður hlíðina. Þegar niðurstaðan úr vettvangsrannsókninni að steininum lá fyrir kom það í hlut Verkís að leggja mat á framhaldið og var þar horft til tveggja möguleika, að festa steininn niður eða fjarlægja hann.

Verkís lagði eins og áður sagði til að steinninn yrði fjarlægður. Í rökstuðningi benti Verkís á að það að festa steininn niður sé ekki varanleg aðgerð og krefjist til dæmis eftirlits með festingum. Þá sé ekki augljóst hvernig best sé að festa steininn niður og festingar hafi áhrif á útlit steinsins og nánasta umhverfi.

Verkís benti jafnframt á að tillaga um að setja stoðvirki í fjallshlíðina til varnar snjóflóðum í kringum steinninn liggi fyrir. Með tilkomu þeirra sé farsælast að fjarlægja steininn. Ef steinninn yrði ekki fjarlægður myndi hann glata sérstöðu sinni á milli 3 m hárra stoðvirkjaraða og aðgengi að honum versna.